Innlendum hryðjuverkum fjölgar gríðarlega

Christopher Wray ber vitni um árásina á þinghús Bandaríkjaþings 6. …
Christopher Wray ber vitni um árásina á þinghús Bandaríkjaþings 6. janúar fyrir öldungadeildinni í dag. AFP

Innlendum hryðjuverkamálum í Bandaríkjunum hefur farið hratt fjölgandi það sem af er ári að sögn Christopher Wray, yfirmanns bandarísku alríkislögreglunnar. Wray segir að óeirðirnar í Washington-umdæmi í byrjun janúar, þegar múgur braut sér leið inn í þinghús Bandaríkjaþings, gætu reynst öfgasinnum innblástur. 

Um 2.000 innlend hryðjuverkamál eru nú til meðferðar hjá bandarísku alríkislögreglunni, en málin voru um 700 í lok síðasta árs. 

Handtökur „ofbeldisfullra öfgasinna sem drifnir eru áfram af kynþáttahyggju“, að meðtöldum öfga-hægrisinnum sem trúa á yfirburði hvíta kynstofnsins (e.White supremacists), hafa þrefaldast frá árinu 2017. 

Wray kom fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings í dag. Í fyrsta sinn kallaði hann umsátrið um þinghúsið 6. janúar síðastliðinn „innlent hryðjuverk“, en Wray hefur ekki tjáð sig opinberlega frá atvikinu. Árásin gæti „orðið innblástur fyrir fjölda öfgasinna“, að sögn Wray, en lokað var á Twitter-aðgang Donalds Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta í kjölfar árásarinnar. Yfir 260 hafa verið handteknir í tengslum við málið. 

Hafnar kenningu um dulbúna áróðursmenn

Wray sagði það gera lítið úr lögum landsins að árásir á borð við þá sem varð 6. janúar verði liðnar. „Hryðjuverk í dag, og við sáum það 6. janúar, ferðast á hraða samfélagsmiðla,“ sagði Wray og varaði við því að öfgasinnar noti dulin skilaboð á samfélagsmiðlum til að koma í veg fyrir að fyriráætlanir þeirra verði yfirvöldum ljósar. 

Wray sagði að mesta hættan stafi af einstaklingum sem „starfa einir“ og hafi orðið fyrir áhrifum öfgamanna á samfélagsmiðlum, ýmist frá erlendum hryðjuverksamtökum á borð við Ríki íslam eða innlendum hryðjuverkasamtökum hægri-öfgasinna á borð við Proud Boys. 

Wray hafnaði kenningu sem hópur stuðningsmanna Trump hefur haldið fram og snýr að því að vinstrisinnaðir áróðursmenn hafi dulbúið sig sem stuðningsmenn Trump og í raun staðið að baki árásinni 6. janúar. Hann sagði að rannsókn alríkislögreglunnar sýni fram á að fjöldi öfgasinna úr röðum herskárra hægrihópa hafi tekið þátt í árásinni. 

Wray var skipaður yfirmaður alríkislögreglunnar af Trump árið 2017 og naut skipun hans þverpólitísks stuðnings innan Bandaríkjaþings. 

Frétt BBC. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert