Þriðja konan sakar ríkisstjórann um áreitni

Þriðja konan hefur sakað Andrew Cuomo um kynferðislega áreitni.
Þriðja konan hefur sakað Andrew Cuomo um kynferðislega áreitni. AFP

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, hefur nú verið sakaður um kynferðislega áreitni af þremur konum á tæpri viku. Þriðja konan, Anna Ruch, steig fram í dag og sagði ríkisstjórann hafa snert hana á óviðeigandi hátt og spurt hvort hann mætti kyssa hana í brúðkaupi árið 2019.

Í síðustu viku sökuðu tveir fyrrverandi starfsmenn Cuomo um að hafa áreitt þá kynferðislega. Lindsey Boylan, fyrrverandi ráðgjafi Cuomo, steig fyrst fram og sagði áreitnina hafa átt sér stað við nokkur tilefni á árunum 2016 til 2018.

Nokkrum dögum síðar greindi Charlotte Bennett, fyrrverandi ráðgjafi Cuomo á sviði heilbrigðismála, frá óviðeigandi hegðun hans í hennar garð. Á Cuomo meðal annars að hafa spurt hana hvort hún myndi íhuga að stunda kynmök með eldri manni.

Ruch er fyrsta konan sem ekki var áður starfsmaður Cuomo sem sakar hann um kynferðislega áreitni. Greint var frá upplifun hennar af Cuomo í umfjöllun New York Times sem birtist í dag.

Hún var stödd í brúðkaupi með Cuomo árið 2019 og gekk að honum til að þakka honum fyrir falleg orð um brúðhjónin í ræðu sem hann hélt. Í kjölfarið hafi Cuomo sett hönd sína á beran neðri hluta baks hennar. Hún hafi fjarlægt hönd hans en þá hafi hann gripið um kinnarnar á henni og spurt hana hvort hann mætti kyssa hana.

Cuomo grípur um kinnar Önnu Ruch.
Cuomo grípur um kinnar Önnu Ruch. Ljósmynd/Skjáskot

Cuomo hefur ekki tjáð sig um ásakanir Ruch en talsmaður hans benti fjölmiðlum á yfirlýsingu sem hann sendi frá sér á sunnudaginn sl. þar sem hann sagði að hann hefði aldrei snert neinn á óviðeigandi hátt eða áreitt kynferðislega.

Ríkisstjórinn hefur samþykkt að fram fari óháð rannsókn á ásökunum á hendur honum og hefur beðið ríkissaksóknara New York og dómara um að skipa lögmann úr einkageiranum til að leiða rannsóknina.

mbl.is