Dómsmálaráðherra sakaður um nauðgun

Christian Porter ræddi við fjölmiðla í Perth í dag.
Christian Porter ræddi við fjölmiðla í Perth í dag. AFP

Dómsmálaráðherra Ástralíu hefur stigið fram og greint frá því að það sé hann sem er sakaður um að hafa nauðgað 16 ára gamalli stúlku líkt og fjallað hefur verið um undanfarna daga. Hann neitar sök.

Christian Porter, sem er þekktur lögfræðingur og fyrrverandi ríkissaksóknari, tjáði sig um málið við fjölmiðla í dag. Hann segist ekki hafa brotið gegn stúlkunni og það sem ýjað sé að sé ósatt.

Hann er sakaður um að hafa nauðgað skólasystur sinni árið 1988 eftir að þau hafi verið á kappræðum við háskólann í Sydney. Porter segir að hann ætli ekki að segja af sér en muni fara í stutt leyfi. 

Porter neyddist til þess að stíga fram eftir að nokkrir þingmenn fengu í hendur gögn þar sem konan, sem lést í fyrra, sakar hann um nauðgun. Hún lagði ekki fram formlega kæru en framdi sjálfsvíg í fyrra.

mbl.is