Grímuklæddur maður beraði sig

Við voginn í miðbænum í gömlu Hansakaupmannaborginni Bergen. Maður var …
Við voginn í miðbænum í gömlu Hansakaupmannaborginni Bergen. Maður var handtekinn þar um helgina eftir að hafa farið um borgina vikum saman og berað sig fyrir konum á förnum vegi með sóttvarnagrímu fyrir vitum sér. Ljósmynd/Wikipedia.org/Pål S. Schaathun

Lögreglan í Bergen í Noregi krafðist á mánudag og fékk fjögurra vikna gæsluvarðhaldsúrskurð yfir 24 ára gömlum manni sem gengið hefur undir nafninu „grímu-flassarinn“ eða munnbind-blotteren, svo þjált sem það hljómar á norsku, fyrir háttsemi sína síðustu vikur, en maðurinn er grunaður um að hafa farið um bæinn með sóttvarnagrímu fyrir andlitinu og hrellt konur á förnum vegi með því að afhjúpa nekt sína fyrir framan þær og hafa uppi ýmsa kynferðislega tilburði.

Svo rammt hefur kveðið að framgöngu mannsins síðan í janúar að hann er grunaður um að hafa viðhaft nektarsýningar þessar alls níu sinnum víðs vegar um bæinn og hafa fjölmiðlar reglulega greint frá tilkynningum um athæfi hans, fyrst í lok janúar.

Það var svo klukkan 01:30 að norskum tíma aðfaranótt laugardags að lögregla hafði hendur í hári mannsins eftir að tilkynnt hafði verið um hann hálfnakinn í nágrenni við Danmarks plass, skammt frá miðbænum, en nóttina áður ásótti hann konu, sem átti leið um Fosswinckels-götu, við hús félagsvísindadeildar Háskólans í Bergen.

Mundi ekki eftir tveimur tilfellum

„Grunaði hefur viðurkennt sekt sína í sjö af níu tilfellum,“ sagði Elisabeth Ryen, lögmaður vesturumdæmis lögreglunnar, við gæsluvarðhaldsþinghaldið fyrir héraðsdómi á mánudaginn.

Að sögn verjanda mannsins, Marius Wesenberg, er ástæðan fyrir því að skjólstæðingur hans viðurkenndi ekki sekt í þeim tveimur tilfellum, sem eftir standa, að hann man ekkert eftir þeim. Eitthvað virðist þó hafa rofað til hjá grunaða er leið á þinghaldið því um síðir kom játningin fyrir síðustu tvö brotin.

Fréttaflutningur af athæfi mannsins hefur vakið nokkurn ugg í Bergen síðustu vikur, að sögn norska ríkisútvarpsins NRK sem enn fremur kveður lögreglu hafa haft uppi viðbúnað vegna málsins. Ástæðan fyrir gæsluvarðhaldskröfunni er það mat lögreglu að maðurinn muni halda uppteknum hætti við lostaverk sín, gangi hann laus.

Wesenberg verjandi segir ljóst, af fjölda þeirra brota sem maðurinn liggur undir grun um, að skjólstæðingur hans eigi við vanda að stríða. „Honum er það ljóst sjálfum og hann hefur í hyggju að leita sér aðstoðar,“ segir Wesenber við NRK.

NRK

NRKII (atvikið við háskólann)

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert