Sprengja sprakk við hollenskan sýnatökustað

Tæknideild lögreglu að störfum í Bovenkarspel.
Tæknideild lögreglu að störfum í Bovenkarspel. AFP

Sprenging varð skammt frá skimunarstað vegna Covid-19 í miðbæ Bovenkarspel í Hollandi skömmu fyrir klukkan 7 í morgun. Enginn slasaðist en rúður brotnuðu að sögn lögreglu.

Málið er í rannsókn lögreglu en ljóst að um sprengju var að ræða þar sem járnhólkur sem hafði sprungið fannst fyrir utan sýnatökustaðinn. Bovenkarspel er 60 km norður af höfuðborginni, Amsterdam. Nokkrar vikur eru síðan kveikt var í sýnatökustað í Hollandi en á þeim tíma voru fjölmenn mótmæli vegna útgöngubanns sem sett var á í landinu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. 

Hollenska lögreglan að störfum í Bovenkarspel.
Hollenska lögreglan að störfum í Bovenkarspel. AFP

Talsmaður lögreglunnar í norðurhluta Hollands, Menno Hartenberg, segir ljóst að um viljaverk var að ræða. Ekki sé möguleiki á að þetta hafi verið óviljandi. Hólknum hafi verið komið fyrir við bygginguna og sprakk hann beint fyrir framan sýnatökustaðinn. 

Heilbrigðisráðherra Hollands, Hugo de Jonge, fordæmdir árásina og segir að heilbrigðisyfirvöld í landinu séu slegin vegna atburðarins. „Í meira en heilt ár höfum við reitt okkur á framlínustarfsmenn og svo gerist þetta núna. Þetta er brjálæði.“  

Embætti landlæknis hefur einnig sent frá sér tilkynningu þar sem lýst er hryllingi yfir þessari árás sem beint er gegn starfsfólki þess sem vinni mikilvægt starf. 

Sá hluti Hollands þar sem Bovenkarspel er hafa komið upp mörg smit að undanförnu. Þar er 81 smit á hverja 100 þúsund íbúa á meðan meðaltalið fyrir Holland er 27,2. Yfir ein milljón hefur smitast þar í landi og yfir 15 þúsund hafa dáið af völdum Covid-19. Búið er að bólusetja yfir 1,3 milljónir undanfarnar vikur. 

mbl.is