Þrír í lífshættu eftir árás í sænskum bæ

Lögregla á afgirtu svæði í miðborg Vetlanda í Smálöndum. Þrír …
Lögregla á afgirtu svæði í miðborg Vetlanda í Smálöndum. Þrír eru í lífshættu eftir að maður vopnaður exi réðst á vegfarendur. Málið er rannsakað sem hugsanlegt hryðjuverk. AFP

Átta eru særðir, þar af þrír lífshættulega, eftir að karlmaður gekk berserksgang vopnaður eggvopni í smábænum Vetlanda í Smálöndum Svíþjóðar í dag. 

Maðurinn, sem er á þrítugsaldri, lét til skarar skríða í miðbæ Vetlanda, um þrettán þúsund manna bæjar, skömmu fyrir klukkan þrjú síðdegis. Drjúgt korter leið frá því að fyrsta tilkynning barst lögreglu og þar til árásarmaðurinn var handtekinn á flótta. Dvelur hann nú á sjúkrahúsi undir eftirliti lögreglu en ekki hefur enn tekist að yfirheyra hann, að því er fram kemur í frétt Aftonbladet.

Fram kom á blaðamannafundi síðdegis að maðurinn hefði áður komið við sögu lögreglu. Ekkert bendir til þess, enn sem komið er, að fleiri hafi verið að verki. Lögregla varðist þó allra frétta en sagði að rannsókn málsins væri á byrjunarstigi og unnin í samstarfi við sænsku leyniþjónustuna (Säpo).

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert