Ákærður fyrir sjö tilraunir til manndráps

Á vettvangi árásarinnar.
Á vettvangi árásarinnar. AFP

Maður sem réðst á sjö manns í miðbæ Vetlanda í Smálöndum Svíþjóðar á miðvikudag, með þeim afleiðingum að þrír særðust lífshættulega, verður að öllum líkindum ákærður fyrir sjö tilraunir til manndráps. Þetta kom fram á blaðamannafundi sænsku lögreglunnar í dag.

Maðurinn lét til skarar skríða síðdegis á miðvikudag vopnaður hníf. Fyrst var talið að átta hefðu orðið fyrir árásinni, en á blaðamannafundinum í dag kom fram að fórnarlömbin væru í reynd sjö. Þeir særðu eru allt karlmenn, á aldrinum 35-75 ára, en ekkert bendir til annars en að tilviljun hafi ráðið því á hverja var ráðist.

Aftonbladet greinir frá því að árásarmaðurinn sé 22 ára gamall karlmaður frá Afganistan. Hann sótti fyrst um hæli í Svíþjóð árið 2016 og hefur síðan þá tvívegis fengið tímabundið dvalarleyfi.

Carina Lennquist, lögreglustjóri í Vetlanda, á blaðamannafundi í dag.
Carina Lennquist, lögreglustjóri í Vetlanda, á blaðamannafundi í dag. AFP

Ekki eins og fólk er flest

Blaðið ræðir einnig við kunningja mannsins sem lýsir því að hann hafi ekki verið eins og fólk er flest. „Ef ég á að segja eins og er þá var hann ekki alveg eðlilegur. Hann átti það til að byrja að skellihlæja upp úr þurru áður en hann róaðist allur niður,“ segir kunninginn, sem er einnig frá Afganistan. Árásarmaðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu, þá fyrir vörslu fíkniefna líkt og mbl.is greindi frá í gær. 

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, ávarpaði þjóðina á blaðamannafundi á fimmtudag. Sagði hann ríkisstjórnina eiga í nánu samstarfi við lögreglu og leyniþjónustu vegna árásarinnar. „Margt er enn á huldu, en eitt er þó ljóst. Sérhverri árás gegn saklausu fólki verður mætt af hörku og fullum krafti sænska samfélagsins,“ sagði Löfven.

Í fréttatilkynningu sem forsætisráðherrann sendi út vegna árásarinnar varð honum á að tiltaka að árásarmaðurinn hefði notað hníf, nokkuð sem lögregla hafði ekki viljað gefa upp að svo stöddu. Var fréttatilkynningin fjarlægð af vef forsætisráðuneytisins stuttu síðar og ný útgáfa sett inn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert