Drepinn af sævespu

Sævespa.
Sævespa. Ljósmynd/Wikipedia.org/Guido Gautsch

Ástralskur unglingur er látinn eftir að hafa verið stunginn af sævespu. Er talið að þetta sé í fyrsta skipti í 15 ár sem sævespa drepur einhvern þar í landi.

Heilbrigðisyfirvöld greindu frá því í dag að 17 ára piltur hefði verið stunginn af sævespu (Chironex fleckeri) þegar hann var að synda í Bamaga sem er norðarlega í Ástralíu, þann 22. febrúar. Hann var fluttur með flugi á sjúkrahús en lést þar 1. mars. 

Nokkrar tegundir sævespa framleiða afar öflugt eitur. Þekktust þessara tegunda er Chironex fleckeri, sem mætti nefna sævespu á íslensku. Hún er venjulega talin banvænasta hveldýrið. Á tímabilinu frá 1884 til 1996 er hægt að rekja 64 dauðsföll í Ástralíu til hennar. Þessi tegund finnst við strendur frá norðurhluta Ástralíu og Nýju-Gíneu norður til Filippseyja og Víetnam að því er segir á Vísindavef Háskóla Íslands. 

Sjávarlíffræðingurinn Lisa-Ann Gershwin segir að þetta sé fyrsta dauðsfallið af völdum sævespu í Ástralíu síðan árið 2006. 

„Armar sævespunnar eru allt að þrír metrar á lengd og þaktir milljónum stingfrumna (e. cnidocytes) sem dýrið notar til að veiða og verja sig. Inni í stingfrumunum er svokallað stinghylki. Þegar fruman er látin óáreitt er hylkið samanvafið inni í frumunni. Ef stingfruman verður hins vegar fyrir áreiti, það er að segja ef eitthvert utanaðkomandi fyrirbæri rekst í gikkinn sem liggur utan á frumunni, þá umskautast fruman, stinghylkið skýst út og í bráðina eða það sem áreitti dýrið. Það er talið að eitur úr einni sævespu sé nægjanlegt til að bana 60 manns. Flestir sem verða fyrir stungum af völdum sævespu sleppa þó við þau örlög en finna brunatilfinningu og önnur vægari eitureinkenni,“ segir á Vísindavefnum. 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert