Jarðskjálfti 8 að stærð á Nýja-Sjálandi

Upptök skjálftans voru um þúsund kílómetra norðaustur af Norðurey, fjölmennustu …
Upptök skjálftans voru um þúsund kílómetra norðaustur af Norðurey, fjölmennustu eyju Nýja-Sjálands. Kort/Google

Jarðskjálfti 8,0 að stærð reið yfir norðurströnd Nýja-Sjálands á níunda tímanum í kvöld, að morgni föstudags að staðartíma. Flóðbylgjuviðvörun hefur verið gefin út og íbúum á tilteknum svæðum á austurströnd Norðureyjar gert að yfirgefa heimili sín. Viðbúið er að flóðbylgja nái nyrstu ströndum landsins innan skamms, eða klukkan 21:49 að íslenskum tíma.

Upptök skjálftans voru á 19 kílómetra dýpi nærri eyjunni Kermadec, um þúsund kílómetra norðaustur af Norðurey, fjölmennustu eyju landsins. Nokkuð hefur verið um eftirskjálfta, þeirra stærstur skjálfti af stærð 7,4. Engar fregnir hafa borist af alvarlegu tjóni á mannvirkjum eða manntjóni. Sá bær sem næstur er upptökum skjálftans er Gisborne, en þar búa um 35.000 manns.

Alls létu 185 lífið í borginni Christchurch á Nýja-Sjálandi árið 2011 þegar skjálfti af stærðinni 6,3 reið yfir og lagði stóran hluta miðborgarinnar í rúst.

 Fylgjast má með flóðbylgjunni í beinu streymi hér að neðan.

mbl.is