Mæla með AstraZeneca fyrir eldra fólk

AFP

Þjóðverjar ætla að mæla með því að fólk eldra en 65 ára verði bólusett með bóluefni AstraZeneca og hið sama á við um Belgíu.

Ríkin hafa bæði verið gagnrýnd fyrir hægagang í bólusetningum en að sögn Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og heilbrigðisráðherra Belgíu, Frank Vandenbroucke, benda nýlegar rannsóknir til þess að vel sé hægt að mæla með bóluefninu fyrir eldra fólk enda virkni þess mikil og ekki síðri en Pfizer og Moderna. 

Merkel segir að þetta sé gert í kjölfar meðmæla frá sérfræðinganefnd landsins sem fer með bólusetningar. Þýska ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd undanfarnar vikur vegna ruglingslegra skilaboða um bóluefnið sem hefur valdið því að almennt telji fólk að virkni AstraZeneca-bóluefnisins sé minni en bóluefna Pfizer-BioNTech og Moderna. Jafnvel hafa einhverjir þeirra sem eru í forgangshópum þegar kemur að bólusetningu hafnað því að vera bólusettir með AstraZeneca. Vegna þessa hafa hundruð þúsunda skammta ekki verið nýttir enn sem komið er. 

Að sögn Merkel ákvað ríkisstjórnin í gær að ekki myndu líða meira en 12 vikur að hámarki á milli bólusetninga með AstraZeneca bóluefinu til að tryggja meiri vörn eins fljótt og auðið er. 

Vandenbroucke segir að stjórnvöld muni nú mæla með notkun AstraZeneca fyrir 55 ára og eldri. Niðurstöður rannsókna í Bretlandi og Ísrael sýni að bóluefnið veitir eldra fólki mikla vörn við Covid-19. Íbúar Belgíu eru 11,5 milljónir talsins og hefur landið pantað 7,7 milljónir skammta af AstraZeneca-bóluefninu.

mbl.is