Smitum fjölgar að nýju

AFP

Nýjum kórónuveirusmitum er farið að fjölga að nýju í Evrópu eftir að hafa fækkað jafnt og þétt undanfarnar sex vikur, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Í síðustu viku fjölgaði nýjum Covid-19-smitum í Evrópu um 9 prósent. Þetta þýðir að samdráttarskeiðið sem hefur varað í sex vikur er á enda þar sem nýjum smitum hefur fjölgað í yfir helmingi landa í álfunni, segir Hans Kluge, yfirmaður Evrópudeildar WHO. 

Hans Kluge, yfirmaður WHO í Evrópu.
Hans Kluge, yfirmaður WHO í Evrópu. AFP

Hann segir að vöxturinn sé einkum í Austur- og Mið-Evrópu en einnig í nokkrum ríkjum Vestur-Evrópu þar sem smitfjöldinn var mikill fyrir. Kluge segir nauðsynlegt að herða á bólusetningum til að snúa þessari þróun við. 

Til Evrópudeildar WHO teljast 53 lönd og er bólusetning hafin í 45 þeirra. Samkvæmt tölum AFP-fréttastofunnar hafa 2,6% íbúa Evrópusambandsins fengið tvo skammta af bóluefni við Covid-19 en 5,4% hafa fengið fyrri skammtinn.

mbl.is