Fundu baðhús á bak við barveggi

Barborðið á Giröldu, sem dregur nafn sitt af klukkuturni dómkirkju …
Barborðið á Giröldu, sem dregur nafn sitt af klukkuturni dómkirkju borgarinnar, sem áður var bænaturn. AFP

Smiðir höfðu aðeins nýhafið störf við að yfirhala bar í spænsku borginni Sevilla þegar þeir gerðu óvænta uppgötvun. Byggingin reyndist hýsa átta hundruð ára gamalt tyrkneskt baðhús, svonefnt hammam, sem var fullkomlega á sig komið og veggir þess þaktir fögrum málverkum.

Eftir einungis nokkur hamarshögg í veggi barsins, sem stendur í hjarta borgarinnar, kom í ljós stjörnulaga þakgluggi sem leiddi smiðina áfram á sporið.

Barinn stendur í hjarta borgarinnar, nærri dómkirkjunni. Áður réðu þarna …
Barinn stendur í hjarta borgarinnar, nærri dómkirkjunni. Áður réðu þarna ríkjum Almóhadar sem komu norður yfir hafið frá Afríku. AFP

Uppgötvunin var „algjörlega óvænt“, segir Alvaro Jimenez, fornleifafræðingur sem hefur eftirlit með öllum viðgerðum og yfirhalningum bygginga í nágrenni dómkirkju borgarinnar.

Þakglugginn sem smiðirnir sáu reyndist vera einn af samtals áttatíu og átta slíkum, á þaki þessa bars sem tekur nafn sitt af Giröldunni, La Giralda, sem eitt sinn var turnspíra stórrar mosku en gegnir nú hlutverki klukkuturns dómkirkjunnar.

Loft baðhússins er skreytt 88 útskornum þakgluggum.
Loft baðhússins er skreytt 88 útskornum þakgluggum. AFP

Og meira átti eftir að fylgja. Verkamenn sviptu smám saman hulunni af fallegum málverkum á veggjum salarins, sem er samtals 200 fermetrar að stærð, auk herbergja sem áður hýstu heit, volg og köld böð baðhússins.

Baðhúsið, ásamt listaverkum, höggmyndum og innréttingum, hafði varðveist fullkomlega í yfir átta hundruð ár.

Bjargaði því sem hann fann

Jimenez segir að meðal annars megi þakka arkitekt að nafni Vicente Traver, sem í upphafi 20. aldar ákvað að fela baðhúsið vandlega þegar hann kom fyrir tveimur hæðum til viðbótar í húsinu.

„Við héldum að arkitektinn hefði eyðilagt það en okkur er ljóst núna að hann bjargaði því,“ segir fornleifafræðingurinn. „Hann bjargaði því sem hann fann og varðveitti það fyrir framtíðina.“

Almóhadar lögðu undir sig Sevilla árið 1147 og var borgin önnur höfuðborga í veldi þeirra, ásamt Marrakesh í Marokkó.

Verkamenn skoða gamlar pípulagnir baðhússins á bak við veggibarsins. Aðeins …
Verkamenn skoða gamlar pípulagnir baðhússins á bak við veggibarsins. Aðeins nokkur hamarshögg höfðu verið slegin þegar það kom í ljós. AFP

„Dómkirkjan í Sevilla var byggð á því sem eftir var af Aljama-moskunni, en bygging hennar hófst árið 1172 og var hún vígð árið 1198 þegar lokið var við bænaturninn, La Giralda,“ segir Jimenez. „Böðin eru staðsett í suðurhluta borgarinnar, sem Almóhadarnir breyttu í pólitíska, trúarlega og efnahagslega miðju veldis síns.“

Barinn mun opna bráðlega að nýju en verður nú eins konar lifandi safn. Hefur honum verið gjörbreytt til að endurspegla betur sögu hússins og gefa færi á að skoða íslömsk listaverk og arkitektúr, rétt eins og íbúar borgarinnar gerðu fyrir átta öldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert