„Fyrir fólk eins og okkur“

Viktor Orban forsætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orban forsætisráðherra Ungverjalands. AFP

Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban, hvatti í dag til þess að stofnað yrði til nýs vettvangs hægri flokka í Evrópu. „Fyrir fólk eins og okkur“ sem vill verja fjölskyldur sínar og land.

Fyrr í vikunni yfirgaf stjórnmálaflokkur Orbans, Fidesz, samstarfsvettvang hægriflokka á Evrópuþinginu, EPP, eftir langvarandi deilur. 

Ýmsir hafa velt vöngum yfir því hvort nýtt bandalag á Evrópuþinginu væri í farvatninu, bandalag sem hentaði flokkum eins og Fidesz, en Orban segir að allir möguleikar séu þar fyrir hendi.

„Það ætti að vera til pólitískt afdrep fyrir fólk eins og okkur. Þá sem vilja vernda fjölskyldur, verja föðurland sitt, þá sem aðhyllast samstarf þjóða frekar en evrópskt heimsveldi,“ sagði Orban í viðtali við ríkisútvarpið í Ungverjalandi í dag. 

„Við verðum að skapa þann vettvang. Ég tel að slík stjórnmálastefna muni verða afgerandi afl í Evrópu.“ 

Orban segir að hann sé að ræða við „Pólverjana“ og vísaði þar til stjórnarflokksins í Póllandi, PiS, sem og Matteo Salvini og Giorgia Meloni, leiðtoga tveggja þjóðernisflokka á Ítalíu sem eru á móti innflytjendum og gagnrýnir á ráðandi öfl innan Evrópusambandsins.

Í gær sagði Orban nauðsynlegt að koma á lýðræðisvettvangi fyrir þá Evrópubúa sem ekki vilja flóttamenn, ekki vilja fjölmenningu, sem hafa ekki tekið undir LGBTQ-geðveikina, sem vilja verja kristilegar evrópskar hefðir, sem virða sjálfstæði ríkja og þeirra sem vilja að þjóð þeirra verði hluti af framtíðinni ekki fortíðinni. 

Fidesz-flokkurinn ákvað að yfirgefa EPP samstarfið eftir að flokkarnir þar höfðu greitt atkvæði með því að gera breytingar á samstarfinu sem hefðu gert mögulegt að reka Fidesz úr samstarfinu.

Áður var búið að reka Fidesz að hluta út úr samstarfinu vegna herferðar flokksins gegn Jean-Claude Juncker, þáverandi forseta framkvæmdastjórnarinnar, og bandaríska milljarðamæringsins George Soros, en Orban hefur haldið því fram að þeir hafi lagt á ráðin um að drekkja Evrópu í flóttamönnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert