Frans páfi hitti æðstaklerkinn í Írak

Frans páfi og Ali al-Sistani, æðstiklerkur sjíta-múslima í Írak, í …
Frans páfi og Ali al-Sistani, æðstiklerkur sjíta-múslima í Írak, í morgun. AFP

Ali Sistani, æðstiklerkur sjítamúslima í Írak, tók á móti Frans páfa á heimili sínu í hinni helgu borg Najaf í morgun. Ferðalagið er það fyrsta hjá páfa frá því kórónuveirufaraldurinn hófst og er þetta jafnframt í fyrsta sinn sem páfi heimsækir Írak.

Fundi páfa er ætlað að styrkja hið aldagamla kristna samfélag í landinu og bæta samskipti Páfagarðs við sjítamúslima að því er segir í frétt AFP. Sistani er trúarlegur leiðtogi sjítamúslíma um heim allan. Þótt þeir séu mun færri í heiminum en súnnímúslimar eru sjítamúslimar þó í meirihluta í Írak.

Á fundi þeirra sagði Sistani það rétt kristinna manna að búa líkt og allir Írakar við frið og öryggi og njóta fulls þegnréttar.

Frans páfi hefur lagt sig í líma við að halda uppi þvertrúarlegu samstarfi en hann hefur áður fundað með klerkum súnnímúslima í ríkjum þar sem múslimar eru í meirihluta meðal íbúa, þar á meðal Bangladess, Marokkó, Tyrklandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert