Mongólsku skipt út fyrir kínversku

Ræðu forsetans varpað á stóran skjá í Peking. Árlegur þingfundur …
Ræðu forsetans varpað á stóran skjá í Peking. Árlegur þingfundur fer nú fram í Kína. AFP

Yfirvöld í Innri-Mongólíu verða að „leysa þjóðernisleg vandamál“ og auka veg ríkistungunnar mandarín, helstu mállýsku kínversku. Þetta segir Xi Jinping, forseti Kína. 

Nokkrir mánuðir eru síðan fjölmenn mótmæli geisuðu í Innri-Mongólíu vegna nýrra reglna sem takmarka notkun svæðisbundinna tungumála í héraðinu. Innri-Mongólía er eitt sjálfstjórnarhéraða Kína, en það á landamæri að ríkinu Mongólíu til norðurs og eru menning, uppruni og tungumál héraðsins og ríkisins samofin.

Tugir þúsunda tóku þátt í mótmælum og skólaverkföllum í fyrra til að mótmæla nýjum reglum stjórnvalda í Peking þess efnis að kennsla í skólum skuli nú fara fram á mandarín í stað mongólsku, en breytingin er liður í viðleitni stjórnvalda til að bæla niður menningarmun í ríkinu og samlaga öll svæði ríkjandi Han-menningu.

Fjöldamótmæli í höfuðborginni Peking fylgdu í kjölfarið og voru tugir leiðtoga mótmælenda í kjölfarið handteknir. Mótmælin voru þau stærstu í Peking í áratugi, enda andspyrna sjaldséð sjón þar í landi.

Á föstudag gaf Xi forseti í. Sagði hann að í Innri-Mongólíu skyldu staðlaðar ríkiskennslubækur teknar í notkun til að leiðrétta „rangar hugmyndir“ um menningu og þjóðerni. Sagði hann að arfleifð Han-ríkisins mætti ekki aðskilja frá arfleifð þjóðarbrota né öfugt.

Árlegur fundur löggjafarsamkundu Kína stendur nú yfir, þar sem helstu stjórnmálamenn í ríkinu ferðast til höfuðborgarinnar til að samþykkja þær tillögur sem þeim hefur verið gert að samþykkja.

mbl.is

Bloggað um fréttina