Skemmtigarðar fá að opna í Kaliforníu

Disneyland í Kaliforníu hefur verið lokað frá því í mars …
Disneyland í Kaliforníu hefur verið lokað frá því í mars í fyrra. AFP

Yfirvöld í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum hafa kynnt tilslakanir á samkomutakmörkunum sem taka gildi 1. apríl. Skemmtigörðum á borð við Disneyland verður þá heimilt að opna á nýjan leik í fyrsta skipti í heilt ár.

Nýju reglurnar eru til komnar í ljósi lækkandi nýgengi smita, færri innlagna á sjúkrahús og mikillar fækkunar dauðsfalla af völdum veirunnar að undanförnu en vel gengur að bólusetja í ríkinu.

Samkvæmt reglunum verður tónleikahald heimilt á ný auk þess sem áhorfendur mega mæta á íþróttaviðburði. Í öllum tilfellum verða fjöldatakmarkanir þó við lýði og grímuskylda þar sem annars staðar.

„Varfærin opnun er í samræmi við gögnin. Eftir því sem tilfellum fækkar viljum við geta snúið aftur í vinnu og skóla,“ segir doktor Jeffrey Klausner, prófessor við Háskólann í Suður-Kaliforníu, í viðtali við AP-fréttaveituna. „Viðburðir utandyra hafa alltaf verið tiltölulega áhættulitlir. Að opna þessa staði er því rökrétt.“

Tugir þúsunda hafa misst vinnuna í ríkinu vegna lokananna, þar af um tíu þúsund í Disneylandi og nálægum veitingastöðum og hótelum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert