Vilja breyta fordómafullri skilgreiningu á „konu“

Treccani er fremsta alfræðiorðabók Ítalíu.
Treccani er fremsta alfræðiorðabók Ítalíu. Ljósmynd/Codex/Wikipedia

Um hundrað nafntogaðir einstaklingar á Ítalíu hafa skrifað til útgefenda ítölsku orðabókarinnar Treccani þar sem þeir kalla eftir því að skilgreiningu orðsins „kona“ verði breytt.

Bréfritarar segja að niðrandi orð á borð við „puttana“ sem þýðir hóra eigi ekki heima á lista yfir samheiti orðsins kona. Slík orð ýti undir „kvenfyrirlitnar staðalímyndir sem hlutgeri konur og geri lítið úr þeim,“ segir í bréfinu.

„Tungumál mótar raunveruleikann og hefur áhrif á það hvernig litið er á konur og komið fram við þær.“  

Treccani er útbreiddasta ítalska orðabókin á netinu og hefur verið líkt við alfræðiorðabókina Encyclopædia Britannica. Útgefandi bókarinnar hefur ekki brugðist við bréfinu enn, en hann hefur áður varið afstöðu sína.

Meðal þeirra sem skrifa undir bréfið eru stjórnmálakonan og hinsegin aðgerðasinninn Imma Battaglia, stjórnmálakonan Laura Boldrini og Alessandra Perrazzelli, varaseðlabankastjóri landsins.

mbl.is