Kynlíf í hernum tekið óstinnt upp

Norskir hermenn við Pasvik-landamærastöðina í Finnmörk. Fjöldi sekta innan hersins …
Norskir hermenn við Pasvik-landamærastöðina í Finnmörk. Fjöldi sekta innan hersins fyrir kynlíf í herbúðum eða á öðru umráðasvæði norska hersins tvöfaldaðist nær því milli áranna 2019 og 2020 auk þess sem fjöldi áfengistengdra brota fór úr 51 í 108 milli áranna. Ljósmynd/Norski herinn/Marion Aaserud Dahlen

Fésektum á hendur norskum hermönnum fyrir að stunda kynlíf í herbúðum landsins fjölgaði úr 26 árið 2019 í 44 í fyrra sem þykir svo mikið stökk milli ára að Sigrid Redse Johansen, lögmaður hersins, ræðir þessa kynlífsbyltingu sérstaklega í grein á fréttasíðu hersins, Forsvarets forum, auk þess að tiltaka hana í ársskýrslu um agabrot og refsingar innan hersins fyrir árið 2020.

„Skýringarinnar gæti verið að leita í því að viðvera í herbúðunum hefur verið meiri árið 2020 vegna aðgerða sem hefur verið aflýst vegna kórónuveirunnar,“ ritar Johansen í grein sinni.

Linnea Røbech, yfirtrúnaðarmaður hersins, segist í samtali við norska ríkisútvarpið NRK kannast við að sektarrefsingum hafi fjölgað. „Stífar sóttvarnareglur gera það að verkum að hermenn hafa verið í miklu návígi innan girðinga herbúðanna. Þegar margir safnast saman á sama stað reikna ég með að grunnþarfir mannskepnunnar geti náð yfirhöndinni,“ segir trúnaðarmaðurinn.

18.000 króna sekt fyrir kynlíf

Reglurnar í hernum eru þó skýrar og meira að segja bundnar í lög um herþjónustu, disiplinærloven sem svo heita.

„Hermönnum eru kynntar reglurnar strax við upphaf herþjónustu,“ útskýrir Røbech, „og þær reglur eru ekki settar að ástæðulausu.“ Allt kynlíf innan herbúða og í nágrenni þeirra sé stranglega bannað og sektin við brotum 1.200 norskar krónur við fyrsta brot, um 18.000 íslenskar krónur, eins og par nokkurt, sem staðið var að verki nýlega, fékk að kynnast.

Linnea Røbech, yfirtrúnaðarmaður hersins, segir reglurnar skýrar og hermönnum séu …
Linnea Røbech, yfirtrúnaðarmaður hersins, segir reglurnar skýrar og hermönnum séu kynntar þær þegar við upphaf herþjónustu. Ekkert bannar þó norskum hermönnum að stofna til ástarsambanda innbyrðis. Ljósmynd/Norski herinn

Ekkert bannar þó fólki í herþjónustu í Noregi að hefja ástarsambönd innbyrðis, öll framkvæmdasemi hvað þetta snertir á umráðasvæðum hersins getur þó vakið spurningar um heilindi og hollustu fólks í þjónustu konungs og fósturjarðar og haft neikvæð áhrif á framgöngu þess í almennri herþjónustu, að mati hersins.

„Ég tel mjög eðlilegt að þessu séu settar skorður,“ segir Røbech og bætir því við að brot á reglunum geti bitnað á öðrum í herþjónustunni og svipt hermenn einbeitingu sinni að vörnum landsins.

Áfengistengd brot úr 51 í 108

Í ársskýrslunni um agabrot og refsingar árið 2020 kemur fram að í heildina hafi norski herinn þurft að taka á mun fleiri agabrotum í fyrra en árið á undan, 453 á móti 267. Eins og verið hefur um ófáar þjóðfélagslegar breytingar síðasta árið telja skýrsluhöfundar ekki loku fyrir það skotið að skýringanna megi að hluta leita í kórónuveirufaraldrinum.

Annar algengur orsakavaldur agabrota innan norska hersins í fyrra er samkvæmt skýrslunni mun áþreifanlegri – áfengi. Brot tengd áfengisdrykkju hermanna voru 108 í fyrra, samanborið við 51 árið 2019, og voru brotin í fyrra 24 prósent allra agabrota innan hersins á meðan þau voru 19 prósent brotanna árið á undan. Var fjölgunin einkum áberandi í undirflokknum „undir áhrifum á umráðasvæði hersins“ (n. alkoholpåvirkning på militært område) þar sem fjöldi brota þrefaldaðist milli ára, úr 26 í 77.

NRK

Nettavisen

Forsvarets forum

mbl.is