Útgöngubanni aflétt á Nýja-Sjálandi

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP

Útgöngubanni sem gilt hefur í Auckland, stærstu borg Nýja-Sjálands síðastliðna viku, hefur verið aflétt og eru samkomutakmarkanir í borginni nú þær sömu og annars staðar í landinu.

Bannið var sett á fyrir viku eftir að tólf tilfelli kórónuveirunnar sem ekki hafði tekist að rekja komu upp. Í því fólst að íbúum var ekki heimilt að yfirgefa heimili sín nema til að kaupa í matinn og sækja vinnu sem ekki var hægt að sinna að heiman.

Borgin er nú aftur á lægsta viðbúnaðarstigi eins og aðrir staðir í landinu, þar sem allar verslanir og samkomur eru leyfðar án fjöldatakmarkana. Þá er ekki grímuskylda í landinu en fólk þó hvatt til að bera þær í almenningssamgöngutækjum.

mbl.is