650 milljónir og gæti fjölgað

Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York.
Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York. AFP

Meðal óvæntari afleiðinga kórónuveirufaraldursins gæti verið að barnahjónaböndum fjölgi um margar milljónir. Þetta óttast UNICEF – barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Í nýrri skýrslu samtakanna, sem birt var í dag, segir að faraldurinn geti haft í för með sér tíu milljónir nýrra hjónabanda þar sem annar aðili, yfirleitt konan, er barn.

„Skólalokanir, áhyggjur af efnahagslífinu, takmarkanir á samkomum, ólétta og dauði foreldra vegna faraldursins setja stúlkur í aukna hættu á barnahjónaböndum,“ segir í skýrslunni. Reynist spáin rétt yrði það mikið bakslag í baráttunni gegn barnahjónaböndum, en þeim hefur fækkað mikið liðin ár.

Víðtæk áhrif lokana

Á síðustu tíu árum hefur barnahjónaböndum fækkað um 15%, en enn er það svo að fimmta hvert hjónaband á heimsvísu er á milli fullorðins karlmanns og stúlku undir lögaldri. Talið er að um 650 milljónir kvenna í heiminum hafi gengið í hjónaband á barnsaldri, þar af um helmingur í Bangladess, Brasilíu, Eþíópíu, Indlandi og Nígeríu.

Stúlkur sem ganga í hjónaband á barnsaldri eru líklegri til að verða fyrir heimilisofbeldi og ólíklegri til að sækja skóla. Þær glíma við aukna hættu á ótímabærri og óundirbúinni þungun og látast frekar af völdum barneigna, að því er segir í skýrslunni.

Vegna kórónuveirufaraldursins og samkomutakmarkana af völdum hans er erfiðara fyrir stúlkur að sækja heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og annan stuðning sem verndar þær frá barnahjónaböndum, óundirbúnum barneignum og kynbundnu ofbeldi auk þess sem líkur á brottfalli úr skóla aukast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert