Yngstu börnin mætt í skólann

Boris Johnson forsætisráðherra fagnar mjög þeim afléttingum sem hægt er …
Boris Johnson forsætisráðherra fagnar mjög þeim afléttingum sem hægt er að grípa til. AFP

Börn á aldrinum fimm til ellefu ára fengu að snúa aftur til skóla á Englandi í dag. Aftur á móti hefst staðkennsla ekki fyrr en í næstu viku hjá börnum á aldrinum 12-18 ára. Enskum skólum var lokað í janúar vegna kórónuveirunnar.

Vegna þess hversu vel gengur að bólusetja hafa yfirvöld ákveðið að létta aðeins á þeim hörðu takmörkunum sem þar hafa gilt undanfarna mánuði. Það sem af er ári hafa aðeins börn framlínustarfsmanna getað stundað nám á staðnum. Önnur börn fengu að mæta í einn dag í byrjun janúar eftir jólaleyfi. 

Um 23 milljónir Breta hafa verið bólusettar, það er hafa fengið fyrri skammtinn af bóluefninu. Þetta þýðir að nýjum smitum hefur fækkað og færri verið lagðir inn á sjúkrahús með Covid-19. Yfir 123 þúsund hafa látist af völdum Covid-19 í Bretlandi. Dregið verður úr hömlum utandyra 29. mars og verslanir mega opna að nýju 12. apríl. Vonast er til þess að hægt verði að aflétta öðrum hömlum í júní.

Í Skotlandi máttu börn fjögurra til sjö ára snúa aftur til skóla nýverið og eldri nemendur mega koma í skólann að hluta frá 15. mars. Svipaðar reglur eru í gildi í Wales. Á Norður-Írlandi mega 4-8 ára gömul börn mæta frá og með deginum í dag, 13-18 ára mæta 22. mars en aðrir verða að bíða þangað til í apríl. 

mbl.is