828 nýsmit í Noregi

Horft yfir Bjørvika-svæðið í miðborg Óslóar, borgarráð boðar nýjar reglur …
Horft yfir Bjørvika-svæðið í miðborg Óslóar, borgarráð boðar nýjar reglur í dag auk þess sem Erna Solberg forsætisráðherra kynnir nýjar reglur fyrir allan Noreg í Stórþinginu þegar þetta er skrifað. Ljósmynd/Wikipedia.org/Trond Strandsberg

Síðasta sólarhringinn hafa 828 ný kórónuveirusmit greinst í Noregi, þar af 293 í höfuðborginni Ósló, og hefur ríkisstjórnin boðað nýjar sóttvarnareglur fyrir allt landið nú með morgninum.

„Nú er mikilvægt að ná tökum á smiti í einstökum landshlutum án þess að það komi niður á þeim stöðum þar sem minna er um smit,“ sagði Bent Høie heilbrigðisráðherra við norska ríkisútvarpið NRK í morgun.

Sagði hann R-smithlutfallið svokallaða of hátt í landinu og væri slíkt ástand komið til að vera yki það hættuna á að heilbrigðiskerfi landsins kiknaði undan álaginu. Nýjustu gögn frá nágrannalöndunum sýndu að breska afbrigði kórónuveirunnar væri ekki einvörðungu meira smitandi en hefðbundna afbrigðið heldur ylli það fleirum svo alvarlegum heilsubresti að leita þyrfti á sjúkrahús.

„Þetta segir okkur að við verðum að herða róðurinn,“ sagði ráðherra enn fremur.

Áhyggjur af yngri Óslóarbúum

Tæplega 300 smit í Ósló er töluvert yfir meðaltali síðustu sjö daga sem er 192 smit. Ískyggilegast er ástandið í Grorud í Austur-Ósló þar sem 765 eru smitaðir af hverjum 100.000 íbúum sem er rúmlega fjórfalt á við þann borgarhluta þar sem minnst er um smit sem er Ullern í vesturhluta borgarinnar með 179 smit á hverja 100.000.

Alls hafa 21.762 smit komið upp í Ósló frá því fyrstu smita varð vart í Noregi fyrir einu ári og er um fjórðungur tilfellanna í aldurshópnum 20 – 29 ára en 44 prósent smitaðra Óslóarbúa frá upphafi eru 29 ára og yngri.

Erna Solberg forsætisráðherra er þegar þetta er skrifað að hefja kynningu í Stórþinginu á nýjum reglum ríkisstjórnarinnar fyrir allt landið en Raymond Johansen, formaður borgarráðs Óslóar, boðar einnig nýtt regluverk fyrir höfuðstaðinn sem kynnt verður síðar í dag. „Því miður er fólk ekki nógu duglegt að fara eftir því sem nú er í gildi svo við erum tilneydd að ganga fram af meiri hörku,“ sagði heimildarmaður í Ráðhúsinu í Ósló við dagblaðið VG í morgun.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins hefur borgarráðið mestar áhyggjur af aldurshópnum 10 – 19 ára hvað þetta áhrærir og munu nýju reglurnar í borginni því að einhverju eða miklu leyti gilda um þann hóp.

NRK

VG

Aftenposten

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert