„Ég var að fá mjög óþægilegt símtal“

Í þessu húsi í Tisvilde á Sjálandi í Danmörku lá …
Í þessu húsi í Tisvilde á Sjálandi í Danmörku lá dr. Charlotte Asperud í fastasvefni þegar Timo Juutilainen Nellemose braust inn til hennar vopnaður kúbeini aðfaranótt 30. apríl 2019 og veitti henni áverka sem drógu hana til dauða sólarhring síðar. Hún náði að hringja í dóttur sína og var upptaka úr talhólfi dótturinnar gerð opinber við leit lögreglu að ódæðismanninum. Nokkrir þeirra sem höfðu samband töldu röddina kunnuglega. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Ég var að fá mjög óþægilegt símtal,“ sagði kona sem hringdi í lögregluna um miðja nótt, dóttir Charlotte Asperud, 58 ára gamals læknis sem hafði hringt í hana frá heimili sínu í Tisvilde á Sjálandi í Danmörku klukkan 02:45 aðfaranótt 30. apríl 2019.

Dóttirin náði ekki að svara í símann en fylltist óhug þegar hún hlustaði nokkrum mínútum síðar á upptökuna sem beið hennar í talhólfinu. Heyrðist móðir hennar þar hrópa „þú átt ekki að vera hérna!“ en eina svarið sem hún virðist hafa fengið samkvæmt upptöku talhólfsins var karlmannsrödd sem hrópaði „leggstu niður!“

Þegar lögregla kom á heimili Asperud skömmu síðar fann hún lækninn þar milli heims og helju, en Asperud hafði verið slegin nítján eða tuttugu sinnum í höfuðið með kúbeini eftir að árásarmaðurinn hafði brotist inn í húsið og komið að henni sofandi í svefnherberginu. Var hún flutt með hraði á sjúkrahús þar sem hún lést sólarhring síðar.

Upptakan send fjölmiðlum

Viku eftir ódæðið var lögregla engu nær um árásarmanninn og greip þá til þess óvanalega ráðs að gera upptökuna úr talhólfi dótturinnar opinbera og var hljóðskráin gerð heyrum kunn á vefsíðum fréttamiðla. Heyrist árásarmaðurinn þar skipa lækninum að leggjast niður á framburðarmállýsku Kaupmannahafnarsvæðisins og Norður-Sjálands.

Fljótlega hafði tugur vísbendinga borist og vildu einhverjir þeirra sem höfðu samband meina að þeir þekktu röddina, nefndu jafnvel eitt ákveðið nafn. Eftir að erfðaefni árásarmannsins hafði fundist á vettvangi og gefið fulla svörun við lífssýni sem lögregla hafði þegar í fórum sínum vegna eldri mála og fann undir nafni þess, sem sum vitnanna höfðu nafngreint, var fáum blöðum að fletta.

Í kjölfar framangreindra uppgötvana handtók lögreglan Timo Juutilainen Nellemose, hálfsextugan dansk-finnskan vélaverkfræðing, flugvirkja og flugmann, og tilkynnti honum að hann væri grunaður um að hafa ráðið dr. Asperud bana á heimili hennar undir lok aprílmánaðar.

Vistaður á geðdeild eftir umferðaróhapp

Við rannsókn málsins kom sérstök forsaga þess í ljós. Vélaverkfræðingurinn lenti í umferðaróhappi árið 2014 og var fluttur á bráðamóttöku sjúkrahússins í Hillerød þar sem gert var að sárum hans. Var hann þar lítt við alþýðuskap, ærðist af bræði og hótaði læknum og hjúkrunarfólki öllu illu. Fóru leikar svo að vakthafandi yfirlæknir úrskurðaði með fulltingi fleiri lækna að Nellemose skyldi nauðungarvistaður tímabundið á geðdeild þar sem honum voru gefin róandi lyf.

Timo Juutilainen Nellemose, hálfsextugur dansk-finnskur vélaverkfræðingur, flugvirki og flugmaður, var …
Timo Juutilainen Nellemose, hálfsextugur dansk-finnskur vélaverkfræðingur, flugvirki og flugmaður, var handtekinn í maí 2019, grunaður um ódæðið. Reyndist hann hafa í fórum sínum sjúkraskýrslu með nöfnum sex lækna sem hann taldi sig eiga ýmislegt vantalað við eftir samskipti við þá árið 2014. Dr. Charlotte Asperud var efst á þeim lista. Ljósmynd/Úr einkasafni/Lögreglan á Sjálandi

Á skýrslu um atvikið kom nafn læknisins fram. Það reyndist Charlotte Asperud heitin. Síðar kom í ljós að Nellemose hafði í fórum sínum útprentaða skýrslu frá sjúkrahúsinu með nöfnum sex lækna sem að málinu höfðu komið. Voru nöfnin kirfilega undirstrikuð. Dr. Asperud var greinilega fyrsti læknirinn sem átti að gjalda með lífi sínu það sem verkfræðingurinn taldi grófa misgjörð í sinn garð.

Nellemose hafði tvívegis verið kvæntur, en var fráskilinn fyrir nokkru og átti tvær uppkomnar dætur. Hann hafði lifað góðu lífi, verið gegn borgari og haft ágætar tekjur af menntun sinni, „Tryg luksustilværelse smuldrede“ skrifaði danska dagblaðið Berlingske í fyrirsögn fréttar um málið.

Framfleytti sér á afbrotum

Og brestir höfðu réttilega komið í tilveru verkfræðingsins. Þegar hann var handtekinn fyrir manndrápið í Tisvilde hafði hann nær eingöngu framfleytt sér á afbrotum árum saman, einkum og sér í lagi innbrotum, sem voru mörg á sakaferli hans. Þaðan átti lögreglan einmitt lífssýni hans.

Áfengis- og fíkniefnaneysla setti mark sitt á líf Nellemose eftir síðari skilnaðinn. Við geðrannsókn reyndist hann haldinn djúpstæðum persónuleikaröskunum, þar á meðal ofsóknaræði sem lýsti sér meðal annars í mjög skyndilegum reiðiköstum af minnsta tilefni auk þess sem geðlæknar töldu persónuleika hans andfélagslegan (d. dyssocial personlighedsforstyrrelse). Reyndist hann hafa haldið lista yfir fólk sem honum var í nöp við fyrir ýmsar sakir, fæstar þó miklar.

Nellemose kvaðst við yfirheyrslur kannast við að hafa verið á heimili dr. Asperud umrædda nótt, en neitaði sök þegar hann var beðinn að taka afstöðu til sakarefnisins. Kvaðst hann þó reiðubúinn að játa sig sekan um líkamsárás, en ekki manndráp. Við yfirheyrslur hjá lögreglu kom verkfræðingurinn kurteislega fyrir og var vel máli farinn. Kvaðst hann ekki vera að fullu viss um atburðarásina drápsnóttina, „það er svo langt um liðið“ var ein skýringa hans.

Skjalafals og íkveikjutilraun

Ákæruatriðin urðu alls 14 er upp var staðið. Auk manndráps var þar um að ræða skjalafals þar sem Nellemose hafði komið sér vel við fjölda fólks og notað traust þess til að komast yfir ökuskírteini og greiðslukort sem honum tókst að taka stórfé út úr hraðbönkum með. Þá var hann ákærður fyrir að hafa í laumi komið GPS-sendi fyrir á bifreið annarrar fyrrverandi eiginkonunnar auk þess sem hann hafði lent upp á kant við vinkonu hennar vegna óljóss sakarefnis og gert tvær tilraunir til að kveikja í sumarbústað vinkonunnar.

Rekstur málsins tók langan tíma, tæplega tvö ár, en Héraðsdómur Helsingør kvað dóm sinn upp 23. febrúar, fyrir hálfum mánuði. Sagði Astrid Søndberg, afbrotafréttaritari TV2 í Danmörku, sem hefur skrifað fjölda greina um málið og ræddi við mbl.is í dag, að tafir hefðu fyrst orðið vegna ítarlegrar geðrannsóknar, en eftir það hefði kórónuveirufaraldurinn sett danskt samfélag, eins og fleiri, út af sporinu og dómstólar hreinlega lokað mánuðum saman þegar verst lét.

Krefst fangelsisvistar með árafjölda

Dómurinn í Helsingør í febrúar var óvenjulegur og niðurstaða hans nokkuð sem ekki er daglegt brauð í norrænum rétti. Timo Juutilainen Nellemose var dæmdur til forvaring, eða varðveislu eins og það þýðir beinlínis, um óákveðinn tíma að fengnu áliti geðlækna sem töldu nær öruggt að hann bryti af sér á ný fengi hann um frjálst höfuð strokið í mannlegu samfélagi.

Karoline Normann, verjandi verkfræðingsins, tilkynnti í gær að dómnum yrði áfrýjað til Eystri landsréttar, skjólstæðingur hennar óskaði eftir að fá fangelsisvist sem ákvörðuð yrði með föstum árafjölda. Krefst Normann þess fyrir hönd Nellemose að landsréttur breyti niðurstöðu héraðsdóms í 13 ára fangelsi fyrir að ráða lækninn, sem orðið hafði á vegi hans í kjölfar umferðaróhapps árið 2014, af dögum með kúbeini í apríl 2019.

DR

Berlingske Tidende

TV2

TV2II (drápsnóttin)

Sjællandske Nyheder

mbl.is