Lögreglumaður handtekinn vegna hvarfs ungrar konu

Lögreglumenn í Lundúnum. Myndin er úr safni.
Lögreglumenn í Lundúnum. Myndin er úr safni. AFP

Starfandi lögreglumaður í Bretlandi hefur verið handtekinn vegna hvarfs 33 ára gamallar konu í suðurhluta Lundúna. Konan heitir Sarah Everard en ekkert hefur spurst til hennar síðan hún fór af heimili vinkonu sinnar í úthverfinu Clapham klukkan níu á miðvikudagskvöld í síðustu viku. 

Lögreglumaðurinn var handtekinn í Kent-sýslu í gær. Þá var kona einnig handtekin á sama stað. Hún er grunuð um að hafa aðstoðað brotamann. Þau sitja nú bæði í gæsluvarðhaldi á lögreglustöð í Lundúnum. 

„Handtakan skiptir sköpum við rannsókn málsins. Við munum halda áfram að vinna eins hratt og við getum að rannsókn málsins en sú staðreynd að maðurinn sem hefur verið handtekinn er starfandi lögreglumaður er bæði átakanleg og mjög truflandi,“ sagði aðstoðaryfirlögregluþjónn rannsóknarinnar í gær. 

Þá hefur lögreglan óskað þess að allir sem viti eitthvað um málið stígi fram. 

Þegar Everard fór frá vinkonu sinni ætlaði hún sér að ganga heim á leið einsömul en gangan tekur um 50 mínútur.

Frétt Guardian

mbl.is