Varar við innrás Kínverja í Taívan

Kínverski herinn er ógn við Taívan, að mati Bandaríkjamanna.
Kínverski herinn er ógn við Taívan, að mati Bandaríkjamanna. AFP

Kína gæti ráðist inn í Taívan á næstu sex árum, telur flotaforingi í Bandaríkjaher. Hann sagði frá þessu á fundi þingnefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings.

Kínverjar leitast að hans sögn áfram við að grafa undan hernaðarlegum yfirburðum Bandaríkjamanna í Asíu og samhliða því er þeim hugleikið að hafa stjórn á Taívan, sem telur sig sjálfstætt ríki.

Vegna deilna um hvort Taívan sé í raun sjálfstætt ríki eða hérað í Kína, búa Taívanbúar við sífellda ógn frá meginlandinu í vestri.

 „Ég hef áhyggjur af því að Kína sé að auka enn á áform sín um að bola Bandaríkjunum burt af svæðinu og þar með grafa undan leiðtogahlutverki okkar innan alþjóðasamfélagsins,“ sagði Philip Davidson flotaforingi. 

„Taívan er klárlega eitt hugðarefna þeirra á því sviði. Og ég held að ógnin gæti tekið á sig mynd á þessum áratug, í raun og veru á næstu sex árum,“ sagði Davidson.

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti tjáði heims­byggðinni stuðning sinn við Taív­an á dögunum til þess að gefa í skyn stefnu sína í mál­efn­um er tengj­ast Kína og Suðaust­ur-Asíu, að því er sagði í frétt BBC. Í lok janúar var sagt frá því að Taívanir höfðu tilkynnt um fjölda kínverskra herflugvéla í taívanskri lofthelgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert