Enn eitt áfallið fyrir AstraZeneca

AstraZenece þarf aftur að takmarka dreifingu bóluefnisins til Evrópuþjóða vegna …
AstraZenece þarf aftur að takmarka dreifingu bóluefnisins til Evrópuþjóða vegna framleiðsluvandræða. AFP

Bresk-sænski lyfjaframleiðandinn AstraZeneca tilkynnti í dag, laugardaginn 13. mars, að hann gæti ekki staðið við framleiðslu og dreifingu á skömmtum til Evrópusambandsins vegna framleiðsluvanda og útflutningshamla.

„AstraZeneca þykir leitt að greina frá að það muni ekki geta sent fyrirhugað magn skammta af Covid-19-bóluefninu til Evrópusambandsins þrátt fyrir að hafa unnið sleitulaust að því að auka hraðann í framleiðsluferlinu,“ sagði í yfirlýsingu frá fyrirtækinu.

Framleiðandinn hafði varað við því áður að hugsanlega næðist ekki að framleiða það magn skammta sem eyrnamerkt var Evrópusambandinu. Til stóð að bæta sambandinu það upp með því að flytja um 10 milljónir bóluefnaskammta til Evrópusambandsins frá löndum utan sambandsins, þar sem bóluefnið er einnig framleitt.

„Því miður hafa hömlur á útflutningi þau áhrif að við getum ekki afhent fyrirhugað magn á fyrsta ársfjórðungi, og líklegt er að þær muni einnig hafa áhrif á afhendingu á öðrum ársfjórðungi,“ sagði einnig í yfirlýsingunni.

AstraZeneca hóf að afhenda skammta af bóluefninu til Evrópulanda í febrúar og stefnir enn á að afhenda 100 milljónir skammta á fyrri hluta ársins 2021, þar af á að afhenda 30 milljónir skammta á fyrsta ársfjórðungi.

Vandræði á vandræði ofan

Um er að ræða enn eitt áfallið fyrir AstraZeneca frá því að þróun á bóluefni gegn Covid-19 hófst en hlé þurfti að gera á prófunum á efninu eftir að kona sem var hluti af rannsóknarþýðinu veiktist eftir að hafa fengið bóluefnið. Eftir að rannsóknum á bóluefninu var lokið komu í ljós mistök varðandi skammtastærðir sem gefnar voru þátttakendum sem talið var að myndu skekkja niðurstöðurnar.

Þá hefur framleiðandinn átt í erfiðu sambandi við Evrópusambandið vegna brostinna loforða um afhendingu og setti sambandið meðan annars skorður á magn sem fyrirtækið mátti flytja út til landa utan Evrópusambandsins.

Í Suður-Afríku var svo hætt að nota bóluefnið vegna þess að óvíst var hversu mikla virkni bóluefnið hefði gegn suðurafrísku afbrigði kórónuveirunnar. Svisslendingar íhuguðu að selja sínar birgðir af efninu vegna slæms orðspors og birgðir söfnuðust upp í Þýskalandi og Frakklandi vegna þess hve illa gekk að sannfæra þegna um gildi bóluefnisins.

Ekki gefið fólki 65 ára og eldra

Þá var víða hætt við að gefa fólki eldra en 65 ára bóluefnið eftir að þýskir fjölmiðlar greindu frá takmarkaðri virkni efnisins gegn kórónuveirunni hjá fólki í þessum aldurshópi en fallið hefur verið frá þeim ákvörðunum að miklu leyti.

Í vikunni bárust svo fregnir frá Danmörku þess efnis að tilkynnt hefði verið um mögulegar aukaverkanir af bóluefninu, þ.e. andlát annars vegar og blóðtappa hins vegar. Margar þjóðir hafa því stöðvað bólusetningar með bóluefninu tímabundið meðan tengslin eru rannsökuð, þar á meðal Ísland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert