Lögreglan beitti valdi á minningarathöfn

AFP

Lögreglan í London sætir harðri gagnrýni eftir að hún beitti valdi til að stöðva minningarathöfn um Söruh Everard í gærkvöldi. Lögreglumaður hefur verið ákærður fyrir morðið á Everard.

AFP

Leiðtogi Frjálslyndra demókrata, Ed Davey, hefur farið fram á að lögreglustjórinn í London,  Cressida Dick, segi af sér og Priti Patel innanríkisráðherra hefur farið fram á að fá skýrslu um atvikið en meðal annars handjárnuðu lögreglumenn konur sem tóku þátt í minningarathöfninni og fóru með þær á brott.

Að sögn lögreglu voru fjórir handteknir og hafi fólkið verið handtekið til að tryggja öryggi. 

AFP

Nokkur hundruð komu saman við Clapham Common í gærkvöldi til að minnast Everard en morðið á henni hefur vakið upp miklar umræður í bresku samfélagi um öryggi kvenna, jafnvel á Covid-tímum.

Hætt hafði verið við minningarathöfn sem hafði verið skipulögð af samtökunum Reclaim These Streets fyrr um um daginn vegna viðvarana frá lögreglu vegna Covid-19 og þeirra reglna sem gilda vegna farsóttarinnar.

Fjölmargir hafa minnst Söruh Everard við Clapham Common.
Fjölmargir hafa minnst Söruh Everard við Clapham Common. AFP

Samtökin sendu frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem þau gagnrýndu harðlega viðbrögð lögreglunnar og sérstaklega hvernig karlkyns lögreglumenn tóku á konum sem voru viðstaddar minningarathöfnina. Það sé á þeirra ábyrgð að tryggja öryggi almennings, lýðheilsu og um leið réttinn til að mótmæla. Þeim hafi mistekist allt þetta í gærkvöldi. 

AFP

Á samfélagsmiðlum mátti sjá lögreglu taka hart á þeim sem tóku þátt í minningarathöfninni og auk Patel hefur borgarstjórinn í London, Sadiq Khan, farið fram á að fá útskýringar á því hvernig lögregla brást við. 

Everard var að ganga heim frá íbúð vina þegar hún hvarf sporlaust á tíunda tímanum að kvöldi 4. mars. Á þriðjudag var 48 ára gamall lögreglumaður, Wayne Couzens, handtekinn í tengslum við rannsóknina á heimili sínu í Kent. Lík Everard fannst í skóglendi þar skammt frá daginn eftir. Hann var ákærður fyrir morð á föstudag og leiddur fyrir dómara í gær.

AFP

Fjölmargir tóku þátt í rafrænni minningarathöfn um Everard í gærkvöldi. Þeirra á meðal var Boris Johnson forsætisráðherra og eiginkona hans sem kveiktu á kerti í minningu Everard. 

„Ég get ekki ímyndað mér hversu óbærileg sorg þeirra og missir er,“ skrifar Johnson á Twitter og það verði að leysa þetta mál eins fljótt og auðið er. „Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að tryggja öryggi á götum úti og tryggja að konur og stúlkur þurfi ekki að þola áreitni eða misnotkun.“

Frá heimili forsætisráðherra, Boris Johnson, við Downing-stræti 10 í gærkvöldi.
Frá heimili forsætisráðherra, Boris Johnson, við Downing-stræti 10 í gærkvöldi. AFP

Fyrr um daginn höfðu Vilhjálmur prins og Katrín eiginkona hans heimsótt sviðið við Clapham Common sem hefur verið breytt í minnisvarða um Everard en vinir sem hún heimsótti þetta kvöld búa í Clapham en hún bjó í Brixton. Ganga sem átti að taka 50 mínútur. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert