Valdbeiting nauðsynleg að mati lögreglu

Talsmaður lögreglunnar segir að nauðsynlegt hafi verið fyrir lögregluna að …
Talsmaður lögreglunnar segir að nauðsynlegt hafi verið fyrir lögregluna að beita valdi á minningarathöfn um Söruh Everard í London í gær. AFP

Lögreglan í London segir það hafa verið nauðsynlegt að beita valdi á minningarathöfn um Söruh Everard í gærkvöldi til að tryggja öryggi almennings. Lögreglan hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir valdbeitinguna en á minningarathöfninni mátti meðal annars sjá karlkyns lögreglumenn beita konur valdi til að halda aftur af þeim. 

Hundruð brutu sóttvarnareglur í gær til að koma saman í Clapham-garðinum til að minnast Everard. Ever­ard var að ganga heim frá íbúð vina þegar hún hvarf spor­laust á tí­unda tím­an­um að kvöldi 4. mars. Á þriðju­dag var 48 ára gam­all lög­reglumaður, Wayne Couzens, hand­tek­inn á heim­ili sínu í Kent, í tengsl­um við rann­sókn­ina. Lík Ever­ard fannst í skóg­lendi þar skammt frá dag­inn eft­ir. Hann var ákærður fyr­ir morð á föstu­dag og leidd­ur fyr­ir dóm­ara í gær.

Samtökin Reclaim These Streets hafa harðlega gagnrýnt aðgerðir lögreglu á minningarathöfninni í gær. Innanríkisráðherra Bretlands, Priti Patel, og borgarstjóri London, Sadiq Khan, hafa báðir krafist skýringa frá lögreglustjóranum í London, Cressidu Dick, en margir hafa krafist afsagnar hennar. 

Einn undirmanna Dick, Helen Ball, sagði að lögreglan, sem áður hafði neitað beiðni um heimild fyrir minningarathöfninni, hafi þurft að bregðast við til að tryggja öryggi fólks. 

Bell sagði að hættan á að dreifa kórónuveirusmiti hafi verið mikil þegar mörg hundruð manns hafi komið saman í garðinum. 

„Við vildum alls ekki vera í þeirri stöðu að lögreglan þyrfti að beita valdi. En við vorum sett í þessar aðstæður vegna þess að það var nauðsynlegt að tryggja öryggi fólksins,“ sagði Bell. 

Fjórir voru handteknir á minningarathöfninni, fyrir óspektir á almannafæri og fyrir að brjóta sóttvarnareglur.

Frá minningarathöfninni í gær.
Frá minningarathöfninni í gær. AFP
mbl.is