Stjórnvöld brjóta stjórnarskrávarinn rétt fólks

AFP

Japönsk yfirvöld brutu gegn stjórnarskrá landsins með því að viðurkenna ekki hjónabönd samkynhneigðra. Þetta er niðurstaða fyrsta málsins af mörgum sem eru fyrir dómi í Japan. 

Á annan tug samkynhneigðra para höfðaði mál við héraðsdómstóla víðs vegar um landið árið 2019 þar sem ríkisstjórnin var  sökuð um að vera eina G7-ríki heims sem ekki viðurkennir hjónabönd samkynhneigðra.

Fyrsti dómurinn féll í borginni Sapporo í dag og er það niðurstaða dómara að þetta brjóti gegn 14. grein stjórnarskrárinnar sem kveður á um jafnrétti. 

Þingkonan Kanako Otsuji fagnar mjög niðurstöðunni en hún tilheyrir fámennum hópi japanskra stjórnmálamanna sem hefur komið fram opinberlega sem samkynhneigður. Hún segist vonast til þess að þetta verði til þess að lögum verði breytt á þann veg að fólk af sama kyni geti gengið í hjónaband. 

Skoðanakönnun sem gerð var í nóvember sýndi að 61% Japana styður hjónabönd samkynhneigðra. Þrátt fyrir það er það erfiðleikum bundið fyrir samkynhneigð pör að leigja íbúðir saman og þau fá ekki að heimsækja hvort annað á sjúkrahús. 

mbl.is