Trump hvetur stuðningsmenn til bólusetninga

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur hvatt repúblikana og stuðningsmenn sína, til að láta bólusetja sig við Covid-19.

„Ég mæli með því,“ sagði Trump í viðtali við Fox News.

„Ég mæli með því við fullt af fólki sem vill ekki fá bóluefnið og stór hluti af þessu fólki kaus mig,“ sagði hann. „Þetta er frábært bóluefni, þetta er öruggt bóluefni og það virkar.“

Síðan Trump fór úr Hvíta húsinu í janúar hefur hann ekki verið jafn afdráttarlaus og nú í stuðningi sínum við herferð í Bandaríkjunum til að fá fólk til að láta bólusetja sig.

Presturinn Patricia Fears fær bóluefni í Washington DC.
Presturinn Patricia Fears fær bóluefni í Washington DC. AFP

Allir núlifandi fyrrverandi Bandaríkjaforsetar, þar á meðal demókratinn Barack Obama og repúblikaninn George W. Bush, hafa hvatt fólk til bólusetninga á meðan Trump hefur haft sig lítið í frammi. 

Skoðanakannanir sýna að karlmenn sem styðja Repúblikanaflokkinn, sem eru að stórum hluta stuðningsmenn Trumps, hafa mestar efasemdir um ágæti bólusetninga.

mbl.is