Forseti Tansaníu látinn

John Magufuli.
John Magufuli. AFP

Forseti Tansaníu, John Magufuli, lést í gær úr hjartabilun 61 árs að aldri. Magufuli gerði lítið úr kórónuveirufaraldrinum og hélt því fram í júní að veirunni hefði verið útrýmt úr landinu, þökk sé Guði. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar segir að Magufuli hafi veikst af Covid-19.

Magufuli, sem oft var nefndur bolabíturinn, hafði ekki komið fram opinberlega í þrjár vikur og voru ýmsar sögur í gangi varðandi heilsufar hans. 

Varaforseti landsins, Samia Suluhu Hassan, greindi frá andláti Magufuli í gær. Hún segir að hjartabilun hafi dregið hann til dauða en hann hafi glímt við langvinnt gáttatif í áratug. Hann lést á sjúkrahúsi í Dar es Salaam.

Hann var fyrst lagður inn á Jakaya Kikwete-hjartamiðstöðina 6. mars en var fljótlega útskrifaður segir Hassan. Heilsufar Magufuli skánaði ekki og 14. mars var hann fluttur með hraði á Emilio Mzena-sjúkrahúsið í Dar es Salaam. 

Magufuli kom síðast fram opinberlega 27. febrúar og þegar hann mætti ekki til messu  þrjá sunnudaga í röð fóru margir að hafa áhyggjur af heilsu hans en Magufuli var afar trúrækinn kaþólikki.

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Tundu Lissu, vísaði í heimildir um að forsetinn hefði fengið Covid-19 sem hafi aukið mjög á slæmt heilsufar hans. AFP-fréttastofan tekur fram að ekki hafi tekist að fá þessar fullyrðingar Lissu staðfestar. 

Magufuli hélt því fram að lítil hætta væri af völdum Covid-19 líkt og fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, sem og forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro. Magufuli hvatti fólk til þess að biðja til Guðs í stað þess að nota grímur og í apríl í fyrra var hætt að birta tölur um smit og þá sem létust af völdum farsóttarinnar. Á þeim tíma höfðu 509 smit verið staðfest og 16 látist.

AFP

Tansanía setti snemma á útgöngubann og ferðatakmarkanir til að draga úr smithættu en í maí í fyrra sagði forsetinn að hann hefði látið taka sýni úr ávöxtum og dýrum og að þau sýni hafi reynst jákvæð. Það sýni fram á að ekkert væri að marka niðurstöðu rannsóknarstofunnar. 

Síðar sagði Magufuli að bænir hefðu bjargað landinu frá Covid-19. „Það er þess vegna sem við berum ekki grímur hér. Þið teljið að við óttumst ekki að deyja? Það er vegna þess að það er ekkert Covid-19,“ sagði hann. 

Þegar varaforseti sjálfstjórnarsvæðisins að hluta, Zanzibar, lést úr Covid-19 í febrúar staðfesti Magfuli að kórónuveiran væri til. Samt bað hann heilbrigðisráðherrann að flýta sér ekki við að útvega bóluefni enda væru þau hættuleg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert