Sterk ónæmissvörun hafi valdið blóðtöppunum

AFP

Sérfræðingar á Ríkisspítalanum í Noregi telja að bóluefni AstraZeneca gegn Covid-19 hafi hrundið af stað óvæntum ónæmisviðbrögðum hjá nokkrum heilbrigðisstarfsmönnum. Viðbrögðin hafi svo orðið til þess að blóðtappar mynduðust hjá starfsmönnunum. 

„Kenning okkar um að þetta sé sterk ónæmissvörun eftir bólusetningu er líklegast staðfest. Við höfum greint sérstök mótefni sem geta orsakað þetta ástand,“ sagði yfirlæknirinn Pål Andre Holme í samtali við VG

Hópur rannsakenda undir hans stjórn hefur undanfarið unnið hörðum höndum að því að komast að því hvers vegna þrír heilbrigðisstarfsmenn yngri en 50 ára voru lagðir inn með blóðtappa eftir að hafa verið bólusettir með bóluefni AstraZeneca. 

Holme segir enga aðra ástæðu geta útskýrt ástand fólksins.

Um 120.000 Norðmenn hafa hingað til verið bólusettir með AstraZeneca. Mjög fá tilvik mögulegra alvarlegra aukaverkana hafa komið upp. Líkt og hérlendis hefur verið gert hlé á bólusetningu með efninu í Noregi. Ákvörðun um framhaldið verður tekin í dag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert