Merkel tekur ábyrgð á „skandalnum“

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

„Mistökin eru mín. “ sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, á blaðamannafundi í Berlín í dag þar sem hún var spurð um klúður yfirvalda er varðar sóttvarnaráðstafanir yfir páskahátíðina.

Greint var frá því í gær að til stæði að framlengja harðar sóttvarnaaðgerðir sem hafa verið í gildi og jafnvel herða þær enn frekar yfir páskana vegna þriðju bylgju faraldursins.

Reglurnar áttu að gilda til 18. apríl en herða átti þær til muna dagana 1.-5. apríl. Þá átti að takmarka samkomur til muna, loka flestum verslunum, loka kirkjum og banna trúarathafnir svo dæmi séu tekin.

Þessar boðuðu aðgerðir vöktu upp mikla reiði í Þýskalandi. „Skandall“ skrifaði leiðarahöfundur þýska fjölmiðlsins Die Spiegel.

Á krísufundi fyrr í dag ákváðu stjórnvöld aftur á móti að hætta við áður boðaðar ráðstafanir og hvetja almenning frekar til að halda sig heima um páskana. Meðal ástæðna sem voru gefnar var flækjustigið sem fylgir því að nánast loka öllu hagkerfinu með nokkurra daga fyrirvara þar á meðal vöruflutningum.

„Þetta ferli hefur aukið óvissuna enn frekar og ég bið alla þegna um að fyrirgefa mér. Mistökin eru mín og á endanum axla ég ábyrgðina,“ sagði Merkel á blaðamannafundinum.

Samkvæmt Robert Koch-stofnuninni greindust 15.813 ný smit í Þýskalandi á síðustu 24 klukkustundum en það er tvöfalt það sem greindist sólarhringinn áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert