Hélt veislu á meðan óbreyttir borgarar voru drepnir

Min Aung Hlaing er yfirmaður herforingjastjórnarinnar.
Min Aung Hlaing er yfirmaður herforingjastjórnarinnar. AFP

Min Aung Hlaing, yfirmaður herforingjastjórnarinnar í Mjanmar, hélt íburðarmikið matarboð á laugardagskvöld á meðan hermenn hans skutu fleiri en 100 manns til bana á götum úti og neyddu þúsundir manna til að flýja til nágrannaríkisins Taílands. 

Helgin í Mjanmar einkenndist af óskipulegum hryllingi og blóðsúthellingum. Atburðirnir hafa verið fordæmdir víða á alþjóðavettvangi. 

Syrgjendur snerta andlit Kyaw Win Maung sem var skotinn til …
Syrgjendur snerta andlit Kyaw Win Maung sem var skotinn til bana af öryggissveitum. AFP

Myndir sem birtar voru á samfélagsmiðlum sýndu Aung Hlaing klæddan í sitt fínasta púss í áðurnefndu kvöldverðarboði. Hann heilsaði viðstöddum og snæddi veislumat í tilefni dags hersins.

Á þeim degi er upphaf andspyrnu hersins gegn hernámi Japana í síðari heimsstyrjöldinni minnst. Venjulega blæs herinn til skrúðgöngu þennan dag en þess í stað gengu hermenn og lögregla berserksgang og drápu að minnsta kosti 114 manns, þar á meðal börn, í 44 bæjum og borgum víðs vegar um Mjanmar. Laugardagurinn var mannskæðasti dagurinn síðan herinn rændi völdum af kjörinni ríkisstjórn landsins og steypti henni af stóli 1. febrúar síðastliðinn. 

Frétt CNN 

mbl.is