Kínverjar taka þátt í framleiðslu Spútnik V

Heilbrigðisstarfsmaður í Moskvu sýnir ljósmyndara Spútnik V bóluefnið. Þessi tiltekni …
Heilbrigðisstarfsmaður í Moskvu sýnir ljósmyndara Spútnik V bóluefnið. Þessi tiltekni bóluefnaskammtur var framleiddur í norðanverðri Ítalíu. Brátt verða skammtar teknir í notkun sem framleiddir voru í Kína. AFP

Samningur milli Rússlands og Kína um framleiðslu á rússneska bóluefninu Sputnik V var undirritaður í dag. Í tilkynningu frá Rússneska fjárfestingarsjóðnum (RDIF), sem fjármagnað hefur þróun Sputnik V, segir að 60 milljónir bóluefnaskammta verði framleiddir í kínverskum verksmiðjum frá maímánuði.

Í tilkynningunni segir einnig að kínverska fyrirtækið Shenzhen Yuanxing Gene-tech Co. muni annast bóluefnaframleiðsluna.

Samvinna okkar með Shenzhen Yuanxing Gene-tech Co. mun gera okkur kleift að framleiða Sputnik V í Kína og þannig auka getu okkar til þess að svara sívaxandi eftirspurn um heim allan, segir Kirill Dmitriev, framkvæmdastjóri RDIF.

Vestræn ríki hafa mörg hver sakað Kínverja og Rússa um að nota bóluefni sín gegn kórónuveirunni til þess að ná fram pólitískum vilja sínum. Þessu harðneita bæði ríki og segja að vestræn ríki hamstri bóluefni, fátækari þjóðum heimsins til mikils ama.

Sputnik V-bóluefni RDIF hefur nú verið veitt markaðsleyfi í 57 löndum með samanlagðan íbúafjölda nærri einum og hálfum milljarði manna.

Xi Jiping, forseti Kína, og Vladimír Pútin, forseti Rússlands.
Xi Jiping, forseti Kína, og Vladimír Pútin, forseti Rússlands. Ljósmynd/Samsett
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert