Talaði bara um sjálfan sig í brúðkaupsveislu

Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, stal sviðsljósinu af brúðkaupshjónum í brúðkaupsveislu þeirra, sem haldin var á Mar-a-Lago í Flórída, hóteli í eigu Trumps. Trump var fenginn til að halda ræðu og óska brúðhjónunum til hamingju, en hann nýtti heldur tækifærið til þess að tala um sjálfan sig og fara ófögrum orðum um arftaka sinn í embætti, Joe Biden Bandaríkjaforseta.

„Eruð þið farin að sakna mín?“ spurði Trump veislugesti.

Veislugestir klöppuðu ákaft og fögnuðu forsetanum fyrrverandi, þar á meðal brúðhjónin og vinir Trumps, Megan Noderer og John Arrigo.

Trump fór hörðum orðum um Biden og gagnrýndi stefnu hans í innflytjendamálum og samskiptum við Kína og Íran.

„Hvað er verið að gera við börnin?“ spurði Trump og vísaði til aðstæðna fylgdarlausra barna á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna. „Þau búa við algjöra eymd, þau búa við aðstæður sem enginn hefur áður séð,“ bætti Trump við.

Hann dró svo í efa úrslit forsetakosninganna í nóvember og ýjaði að því að svindlað hefði verið á honum, áður en hann óskaði loks brúðhjónunum til hamingju.

„Þið eruð frábært og gullfallegt par,“ sagði hann.

mbl.is