Umferð loksins möguleg um Súez-skurðinn

Dráttarbátur dregur flutningaskipið Ever Given.
Dráttarbátur dregur flutningaskipið Ever Given. AFP

Umferð hefur hafist að nýju um Súez-skurðinn eftir að flutningaskipið Ever Given hafði þverað skurðinn í næstum viku og stöðvað alla umferð um skurðinn. Flutningaskipið var losað af björgunarsveitarmönnum í dag.

Dráttarbátar flautuðu í tilefni af því að hið 400 metra langa Ever Given var losað fyrr í dag með aðstoð dýpkunarskipa og dráttarbáta.

Hundruð skipa bíða nú eftir því að fara um skurðinn sem tengir Miðjarðarhaf við Rauðahafið um Egyptaland en þetta er ein mikilvægasta siglingaleið heims.

Peter Berdowski, forstjóri hollenska björgunarfyrirtækisins Boskalis, sagði að Ever Given hefði komist aftur af stað fyrr í dag „sem gerir umferð um um Súez-skurðinn mögulega á nýjan leik“.

Skipið var dregið að Great Bitter Lake, sem situr á milli tveggja hluta skurðarins norðan við þar sem skipið festist. Skipið mun fara í öryggisskoðun.

Abdul Fattah al-Sisi, forseti Egyptalands, þakkaði Egyptum fyrir viðleitni þeirra til að „binda enda á krísuna“ í skurðinum.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert