Sá hvernig líf Floyds fjaraði út

AFP

Vitni saksóknara í réttarhöldunum yfir hvítum bandarískum lögreglumanni, Derek Chauvin, lýsti því í gær hvernig líf George Floyds fjaraði út í höndum lögreglumannsins. Chauvin er ákærður fyrir að hafa drepið Floyd við handtöku í maí í fyrra.

Vitnið, Donald Williams III, lýsti fyrir rétti síðustu níu mínútunum í lífi Floyds, er Chauvin þrýsti hné sínu að hálsi hans. Lögmaður Chauvins segir að valdbeitingin hafi verið „óaðlaðandi“ en nauðsynleg. 

AFP

Drápið á Floyd í Minneapolis vakti heimsathygli enda náðist það á myndskeið sem fór fljótt á flug í netheimum. Kynþáttamisrétti var víða mótmælt og mest í Bandaríkjunum, ekki síst ofbeldi og mismunun af hálfu lögreglu í garð litaðra. 

Chauvin, sem er 45 ára gamall, var rekinn úr lögreglunni ásamt samstarfsmönnum sem tóku þátt í handtökunni á Floyd. Chauvin, sem neitar sök, er ákærður fyrir morð en ef hann verður fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að 40 ára fangelsi.

Þrír lögreglumenn til viðbótar, Tou Thao, J Alexander Keung og Thomas Lane, verða leiddir fyrir dóm síðar á árinu. 

Donald Williams, 33 ára gamall frumkvöðull, lýsti því fyrir rétti í gær að hann hefði verið á leiðinni inn í matvöruverslunina Cup Foods í Minneapolis, Minnesota, þegar hann varð vitni að handtöku Floyds 20. maí. Í stað þess að fara inn tók hann lögreglumennina tali og benti þeim á að kanna púls Floyds. Hann hefði horft á líf Floyds fjara út og líkti því við það sem gerist þegar fiskur er settur í poka, eins og fiskur á þurru landi. 

Réttarhöldin í gær hófust á því að saksóknarar sýndu myndskeiðið, sem er rúmar níu mínútur að lengd, þar sem Chauvin sést krjúpa yfir Floyd. Að sögn Jerrys Blackwells má heyra Floyd segja 27 sinnum við lögregluna að hann nái ekki andanum. 

Blackwell segir að myndskeiðið sýni og sanni að hegðun Chauvins hafi skapað hættu og það án þess að hoft sé til áhrifanna á líkama George Floyds. Eric Nelson, verjandi Chauvins, segir að sönnunargögnin séu miklu fleiri en myndskeið sem varir í níu mínútur og 29 sekúndur. Að gögn sýni að hjartsláttartruflanir hafi dregið Floyd til dauða. Hjartsláttartruflanir sem rekja má til háþrýstings, kórónuveirunnar og neyslu metamfetamíns og fentanýls. Sem og þess að adrenalín flæddi um líkamann. 

AFP

Jena Scurry, sem starfar hjá Neyðarlínunni, bar fyrir dómi í gær að lögregla hefði verið send á vettvang þar sem Floyd hefði framvísað fölsuðum 20 dala seðli í Cup Foods. Hún hefði getað fylgst með handtökunni í öryggismyndavél á byggingunni. Að vísu hefði hún ekki horft með athygli þar sem hún varð að sinna fleiri símtölum til Neyðarlínunnar. Hún hefði hins vegar talið að skjárinn hefði frosið vegna þess hversu lengi Floyd var haldið af lögreglunni og hún hefði haft áhyggjur af því að eitthvað hefði farið úrskeiðis.  

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert