Aldrei jafn margir látið lífið í einum mánuði

Sjúkrarúmum fyrir Covid-sjúklinga var komið fyrir í íþróttahöll í Sao …
Sjúkrarúmum fyrir Covid-sjúklinga var komið fyrir í íþróttahöll í Sao Paulo. AFP

Um 66.500 manns létu lífið í Brasilíu í marsmánuði úr Covid-19 sjúkdómnum. Er það 90,7% fleiri dauðsföll en í júlí á síðasta ári sem er næstmannskæðasti mánuðurinn vegna sjúkdómsins þar í landi. Spítalar eru margir komnir yfir þolmörk og læknar þurfa að taka ákvarðanir um hvaða sjúklingar fá lífsbjargandi aðstoð.

„Aldrei í brasilískri sögu hafa jafn margir dáið úr sama sjúkdómi á 30 dögum,“ sagði læknirinn Miguel Nicelelis, sem leiddi á tímabili viðbragðsteymi stjórnvalda vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins á fátækum svæðum í Norðaustur-Brasilíu.

Meðalfjöldi dauðsfalla á einum degi hefur nærri því fjórfaldast í Brasilíu frá ársbyrjun og er hann orðinn 2.710. Alls hafa fleiri en 317 þúsund látið lífið í landinu frá byrjun faraldurs.

Bylgju nýrra smita má rekja að hluta til afbrigðis veirunnar sem er meira smitandi en flest önnur. Afbrigðið er kallað P1 eða brasilíska afbrigðið og getur að sögn sérfræðinga sýkt einstaklinga sem áður hafa smitast af öðrum afbrigðum.

Ástandið eigi enn eftir að versna

„Við erum á versta stað í faraldrinum hingað til og allt bendir til þess að apríl verði mjög slæmur líka,“ sagði smitsjúkdómafræðingurinn Ethel Maciel hjá Espirito Santo-háskólanum. Bólusetning hefði gengið hægt í Brasilíu og það þýðir að ástandið ætti eftir að versna enn frekar.

Brasilíska lyfjaeftirlitsstofnunin Anvisa veitti í dag neyðarmarkaðsleyfi fyrir notkun bóluefnisins frá Johnson & Johnson. Er það fjórða bóluefnið sem tekið verður í notkun þar í landi en hingað til hefur verið bólusett með efni Pfizer, AstraZeneca og kínverska efninu CoronaVac.

Um 90% gjörgæslurýma í 18 af 27 ríkjum í Brasilíu eru þegar upptekin og staðan er svipuð í öðrum sjö ríkjum. Talið er að minnsta kosti 230 Covid-sjúklingar hafi látið lífið á meðan þeir biðu eftir gjörgæslurými í Sao Paulo í marsmánuði.

Bólusetning fer hægt af stað í Brasilíu.
Bólusetning fer hægt af stað í Brasilíu. AFP
mbl.is