Einn af hverjum sjö með langvarandi einkenni

Einkenni sem spurt var um í rannsókninni voru meðal annars …
Einkenni sem spurt var um í rannsókninni voru meðal annars síþreyta, einbeitingarleysi og vöðvaverkir. AFP

Nærri því einn af hverjum sjö Bretum sem greinst hafa með Covid-19-sjúkdóminn fann fyrir einkennum í að minnsta kosti 12 vikur eftir greiningu. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn.

Samkvæmt Tölfræðistofnun Bretlands (The Office for National Statistics) var könnunin gerð meðal rúmlega 20 þúsund einstaklinga sem greindust jákvæðir á tímabilinu apríl á síðasta ári til mars á þessu ári. 13,7% þeirra fundu fyrir einkennum í 12 vikur hið minnsta.

Einkennin sem rannsóknin tók til voru þrettán. Þau voru meðal annars síþreyta, verkir í vöðvum, erfiðleikar með einbeitingu og tap á lyktar- og bragðskyni.

Konur voru aðeins líklegri til að finna fyrir langvarandi einkennum en karlar. Fólk í aldurshópnum 35-49 ára var líklegast til að finna fyrir einkennum eftir fimmtu viku veikinda.

Töluvert ólíklegri til að upplifa einkenni

Alls tóku 21.622 þátt í rannsókninni og voru þeir valdir af handahófi úr úrtaki þeirra sem greindust jákvæðir fyrir sjúkdómnum eftir sýnatöku. Þeir voru spurðir mánaðarlega um einkenni sín. Þá var hópur fólks sem talinn var hafa sloppið við sjúkdóminn einnig spurður um einkenni mánaðarlega og var fólk í þeim hópi átta sinnum ólíklegra til að finna fyrir sömu einkennum.

Ben Humberstone, yfirmaður greiningardeildar hjá Tölfræðistofnuninni, sagði að um væri að ræða ný gögn sem vörpuðu frekara ljósi á sjúkdóminn og langvarandi einkenni hans. Um fyrstu rannsókn væri að ræða og gögnin ættu eftir að verða skýrari með tímanum.

Bretland er eitt þeirra landa sem hafa farið hvað verst út úr faraldrinum en þar hafa nærri því 127 þúsund manns látist. Fjöldi smita er 4.350.266.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert