Svipta barnaníðing riddaratign

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, mun beita sér fyrir því að viðskiptamaðurinn Ron Brierley verði sviptur riddaratign sinni eftir að hann var fundinn sekur um vörslu barnakláms á dögunum.

Ákvörðunin á sér engin fordæmi, en samkvæmt yfirlýsingu frá skrifstofu forsætisráðherra er vinna hafin við að svipta hann tigninni. „Það er ákveðið ferli fyrir þetta og forsætisráðherrann hefur óskað eftir að það verði virkjað,“ sagði talsmaður hennar í yfirlýsingu.

Brierly, sem er 83 ára gamall, játaði sekt sína fyrir dómi í Sydney í Ástralíu á fimmtudag. Hann var handtekinn þar í landi í desember 2019 en lögregla sagði að mikið magn barnakláms hefði fundist í fórum hans við öryggisleit, á tölvu og hörðum diskum.

Brierley komst til efna á níunda áratugnum og tókst að gera fjárfestingarfélag sitt, Brierly Investments, að einu af stærstu fyrirtækjum Nýja-Sjálands. Honum var veitt riddaratign árið 1988 fyrir „þjónustu sína við viðskiptalíf og samfélagið“.

Einu sinni áður hefur Nýsjálendingur misst riddaratign. Það var árið 1980 þegar Albert Henry, forsætisráðherra Cook-eyja, sjálfstjórnarhéraðs sem tilheyrir Nýja-Sjálandi, var sviptur titlinum eftir að hafa verið sakfelldur fyrir kosningasvindl tveimur árum áður.

mbl.is