Lítil hætta af ferðalögum fullbólusettra

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, fylgist með bólusetningu í höfuðborginni Washington.
Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, fylgist með bólusetningu í höfuðborginni Washington. AFP

Sóttvarnayfirvöld í Bandaríkjunum hafa gefið grænt ljós á ferðalög fullbólusettra. Í nýuppfærðum ráðleggingum Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC) segir að lítil hætta sé á því að fullbólusettir smitist af kórónuveirunni eða beri hana í aðra. Þeir geti því ferðast örugglega innan Bandaríkjanna. Washington Post greinir frá.

Uppfærðar ráðleggingar eru fagnaðarefni fyrir þær 35 milljónir Bandaríkjamanna sem þegar hafa verið fullbólusettar. Til viðbótar hafa um 65 milljónir íbúa fengið fyrri skammt bóluefnisins. 

Ráðleggingarnar voru uppfærðar eftir fjölda rannsókna sem sýna áhrif bóluefnisins í raunheimum. Sýnt hefur verið fram á að öll helstu bóluefni, þar á meðal bóluefni Pfizer, hafi yfir 90% virkni á fyrstu sex mánuðum eftir að bólusetningu lýkur.

Recholle Walensky, yfirmaður Sóttvarnastofnunarinnar, sagði á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag, föstudag, að þótt fullbólusettir geti ferðast án mikillar hættu fyrir þá sjálfa mæli hann almennt gegn ferðalögum. „Ráðleggingar okkar mæla hvorki með né gegn því að fullbólusettir ferðist, heldur fjalla aðeins um öryggi slíkra ferðalaga.“

Fullbólusettir Bandaríkjamenn þurfa ekki að fara í sýnatöku fyrir eða eftir ferðalög, hvort sem þau eru innanlands eða milli landa. Þá þurfa þeir ekki heldur að halda sóttkví nema þess sé sérstaklega krafist í umræddu ríki. Það þýðir að flestir fullbólusettir ættu að geta ferðast milli ríkja Bandaríkjanna nokkuð fyrirhafnarlaust til að hitta ástvini sína í öðrum ríkjum eða fara í frí. Þó er enn mælt með því að þeir beri grímu í flugvélum og almenningssamgöngum.

mbl.is

Bloggað um fréttina