Sóttkvíungar stinga af

Svona er umhorfs á mörgum herbergjum hótelanna í nágrenni Gardermoen. …
Svona er umhorfs á mörgum herbergjum hótelanna í nágrenni Gardermoen. Á þriðja tug þeirra, sem þar eiga að sæta sóttkví í sjö daga, hafa stungið af þrátt fyrir að eiga yfir höfði sér sekt sem nemur allt að 300.000 íslenskum krónum. Ljósmynd/Thonhotels.no

Á milli 20 og 30 manns, sem eiga að dvelja í sóttkví á farsóttarhótelum í nágrenni Gardermoen-flugvallarins við Ósló eftir komu til Noregs, hafa stungið af þaðan síðustu vikuna án þess að spyrja kóng eða prest og virðist fólk láta sér í léttu rúmi liggja að greiða 20.000 norskar krónur í sekt fyrir tiltækið, um 300.000 íslenskar.

Samkvæmt þeim reglum sem nú gilda í Noregi ber öllum, sem haldið hafa í ónauðsynlegar utanlandsferðir, að dvelja minnst sjö sólarhringa í sóttkví á hóteli við komu til Noregs á ný og þurfa að skila tveimur neikvæðum veiruprófum áður en um frjálst höfuð er strokið á ný.

„Fólk vill ekki láta ráðskast með sig,“ segir Sylvia Aastad í samtali við norska dagblaðið VG. Hún starfar hjá sveitarfélaginu Ullensaker, sem Gardermoen-flugvöllurinn tilheyrir, og hefur það hlutverk að útvega komufarþegum hótelherbergi til sóttkvíardvalar á flugvallarhótelunum umhverfis völlinn.

Skeyta skapi á starfsfólkinu

„Þrír sólarhringar [sem fyrri sóttkvíarreglur kváðu á um] vöktu mikla úlfúð og hún minnkar ekki núna,“ heldur Aastad áfram. „Mörgum þykja reglurnar um sóttkví á hóteli freklegt inngrip í líf sitt og mjög ferkantaðar.“

Hún segir fólk einfaldlega vilja halda til síns heima. Hér séu norskir ríkisborgarar með lögheimili í Noregi á heimleið eftir frí erlendis, fólk sem sé vant því að fara til útlanda og koma heim þegar það vill. Því miður hafi sumir fallið í þá gryfju að skeyta skapi sínu á starfsfólki hótelanna.

„Það getur verið ákaflega óþægilegt. Ég hef fullan skilning á því að fólk geti orðið pirrað, reitt og skúffað, en það erum ekki við sem setjum reglurnar. Okkur er bara fengið það hlutverk að fylgja eftir einhverju sem ríkisstjórnin hefur ákveðið,“ áréttar hún.

Helgina fyrir páska sátu um það bil 1.750 manns í sóttkví á hótelunum í nágrenni flugvallarins. Hótelrýmin í Ullensaker eru alls 3.000 og reiknað er með töluveðri fjölgun nú yfir páskahátíðina.

„Treystir okkur ekki“

Tone og Jarle Wergeland eru norskir eftirlaunaþegar sem búa á Kýpur yfir vetrarmánuðina. Þau komu heim um jólin og sátu þá í sóttkví heima hjá sér í Asker, nágrannasveitarfélagi Óslóar. Nú eru þau hins vegar á hóteli við upphaf páskaheimsóknar sinnar til Noregs.

Heima á Hvalstad í Asker bíður heimili þeirra, tvær stofur, fjögur svefnherbergi, tvö baðherbergi og garður. Í sóttkvínni nálægt Gardermoen þurfa hjónin rosknu að snæða á rúmbríkinni þar sem ekkert rými er fyrir borð í herberginu sem þeim var úthlutað. Þau mega fara út í tvær klukkustundir á dag.

„Við kvörtum ekki yfir hótelinu, en við erum rænd frelsinu,“ segir Jarle Wergeland, „mér þykir það illt að þeir [ríkisstjórnin] fái Stórþingið með sér í lið við að breyta reglunum. Þetta minnir dálítið á neyðarlögin [n. unntaksloven] eftir stríðið,“ heldur hann áfram, hálfáttræður maður sem minnist eftirstríðsáranna í Noregi.

Þeim hjónum þótti sóttkví heima fyrir henta ágætlega. „Ríkisstjórnin treystir okkur ekki. Þá getum við ekki treyst henni heldur. Svo einfalt er það.“

Snúa aftur eftir tiltal

Frá vesturströndinni berast þau tíðindi að fimm manns hafi látið sig hverfa úr sóttkví í sveitarfélaginu Sola, nágrannabæ Stavanger, en flugvöllurinn sem þjónar Stavanger og byggðinni þar í kring er í Sola.

Að sögn Odd Kristian Stokka, upplýsingafulltrúa Sola, hefur það þó gerst að fólk hafi snúið aftur í hótelsóttkvína eftir tiltal frá lögreglu.

Í Sandefjord í Suður-Noregi, þar sem Torp-alþjóðaflugvöllurinn er í eðlilegu ástandi heilmikil flugumferðarmiðstöð með beint flug til fjölda áfangastaða í Evrópu, hafa alls 1.100 manns sætt sóttkví á hótelum sé talið frá nóvember í fyrra. Þar hefur hins vegar enginn laumað sér úr sóttkví.

„Þrátt fyrir að ekki hafi nú allir verið alls kostar kátir yfir reglunum hafa allir fylgt þeim í hvívetna,“ segir Thor Henry Thorød frá, upplýsingafulltrúi Sandefjord.

Grýtir hlutum í vegginn

Roman Kulig er tæplega fertugur Þjóðverji sem situr í sóttkví á hóteli skammt frá Gardermoen. Hann er á leið til Þrándheims þar sem hans heittelskaða bíður hans. Þau ætla að gifta sig í sumar og hyggjast nota páskana til að ganga frá ýmsum skjallegum formlegheitum fyrir brúðkaupið. Kulig er jú þýskur ríkisborgari, barnakennari í Augsburg í Bæheimi.

„Hún er tilbúin með alla pappíra og svo breyta þeir reglunum,“ segir Þjóðverjinn bitur og vísar til þess að lágmarksdvöl í sóttkví lengdist fyrirvaralítið úr þremur dögum í sjö. „Maður fær engar nothæfar upplýsingar, einn segir þrír dagar, annar sjö og sá þriðji tíu. Fólk er reitt, unnusta mín er reið. Hún grýtir hlutum í vegginn og grætur,“ segir Kulig úr sóttkví sinni þar sem hann á ekki sjö dagana sæla. Bókstaflega.

VG

Dagbladet

Flysmart24.no

mbl.is