Látinn í íbúð í níu ár

Horft norður Uelands gate í Austur-Ósló. Gatan heitir eftir norska …
Horft norður Uelands gate í Austur-Ósló. Gatan heitir eftir norska þingmanninum Ole Gabriel Ueland en hefur ekki aðra tengingu við manninn sem hér segir af en þá að vera í austurbænum. Ljósmynd/Wikipedia.org/Helge Høifødt

Lögreglan í Ósló veltir því enn fyrir sér hvernig það gat atvikast að ellilífeyrisþegi á áttræðisaldri lá látinn í blokkaríbúð sinni í Austur-Ósló í rúm níu ár, frá því líklega í lok apríl 2011 og þar til hann fannst í desember í fyrra þegar húsvörður þurfti að komast inn í íbúðina vegna viðhaldsvinnu.

„Við höfum hugsað mikið um þetta mál, samstarfsfólk mitt og fólk sem hefur unnið með mál af þessu tagi um árabil,“ segir Greta Lien Metlid, deildarstjóri rannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK um mál mannsins sem virðist hreinlega hafa horfið í kerfinu. „Þetta er ákaflega sérstakt mál sem kveikir spurningar um hvernig þetta gat gerst,“ segir Metlid enn fremur.

Hvernig gat það þá gerst?

Við því er ekkert einfalt svar. Enginn tilkynnti lögreglu um að mannsins væri saknað og engar viðvörunarbjöllur hringdu neins staðar í kerfinu. Vinnu- og félagsmálastofnunin NAV lagði lífeyrisgreiðslur sjálfkrafa inn á bankareikning mannsins og heimabanki hans greiddi reikninga og lánaafborganir sjálfkrafa á gjalddaga.

Norsk skattframtöl þarf ekki að staðfesta, tekjur, lán og skuldir eru forskráð á þau eftir upplýsingum frá bönkum og öðrum stofnunum og geri skattþegn ekki neitt telst framtalinu skilað á miðnætti 30. apríl. Árið 2019 litu 418.000 Norðmenn ekki á skattframtalið sitt. Þægileg og stafræn nútímatækni sem gefur ekkert til kynna um hvort skattþegn er lífs eða liðinn.

NAV stöðvaði þó greiðslurnar árið 2018 eftir að hafa reynt að ná sambandi við manninn án árangurs. Fjárkröfur tengdar hans kennitölu sem rötuðu til NAV frá opinberum aðilum voru þó greiddar af ellilífeyri hans sem stofnunin hélt til haga.

Skrifstofa norsku vinnu- og félagsmálastofnunarinnar NAV (Norsk arbeids- og velferdsetat) …
Skrifstofa norsku vinnu- og félagsmálastofnunarinnar NAV (Norsk arbeids- og velferdsetat) í hverfinu Gamle Oslo. Hinn látni fékk lífeyri greiddan þaðan fyrstu sjö árin sem hann lá látinn í íbúð sinni, en NAV stöðvaði greiðslurnar árið 2018 eftir að hafa árangurslaust reynt að ná sambandi við hann. Ljósmynd/Wikipedia.org/Ssu

„Það er þyngra en orð fá lýst að heyra af einstæðingum sem deyja einir án þess að eiga nokkurn að sem lýsir eftir þeim,“ segir Rina Mariann Hansen borgarráðsfulltrúi, sem hefur félagsmál á sinni könnu, í samtali við norska dagblaðið VG.

Heyrist þó reglulega af slíkum einstæðingum í Ósló og nágrenni. Í fyrra lágu alls 27 manneskjur látnar á heimilum sínum lengur en sjö daga í Ósló, Asker og Bærum. Árið 2019 voru þær 32 í þessum sömu sveitarfélögum og í þeim hópi eldri kona sem lá látin í fimm mánuði í íbúð sinni í Grünerløkka-hverfinu í Ósló áður en hún fannst.

Best fyrir 6. maí 2011

Meðal fyrstu gagna um andlátstíma sem lögregla fann í íbúð mannsins í Austur-Ósló var mjólkurferna í ísskápnum. Síðasti neysludagur þeirrar mjólkur var 6. maí 2011. Í íbúðinni fannst einnig bréf til mannsins sem dagsett var 29. apríl 2011 og skráði lögregla þann dag sem dánardægur mannsins. Sama dag og tveir milljarðar jarðarbúa horfðu á beina útsendingu frá brúðkaupi Vilhjálms prins og Kate Middleton í Westminster Abbey í London.

Nágrannar í blokkinni gáfu lögreglu þær skýringar að þeir teldu manninn hafa flutt úr húsinu eða verið vistaðan á dvalarheimili fyrir eldri borgara. Annað eins gerðist nú án þess að tilkynnt væri opinberlega. Gögn fundust um að hann hefði mætt á fáeina húsfundi fyrir löngu án þess að hafa sig í frammi og einhverjir mundu eftir að hafa ávarpað hann í lyftunni og fengið mestmegnis svör í einu atkvæði.

Seilduksgata er í gömlu verksmiðjuhverfi í Austur-Ósló og dregur nafn …
Seilduksgata er í gömlu verksmiðjuhverfi í Austur-Ósló og dregur nafn sitt af gömlu seglagerðinni Christiania seildugsfabrik frá þeim tíma þegar Ósló hét Christiania sem hún gerði frá 1624 til 1924 eftir Kristjáni IV., konungi Noregs og Danmerkur. Ljósmynd/Wikipedia.org/Helge Høifødt

Maðurinn var einfaldlega ekki mannblendinn. NRK-menn, sem kalla einfarann látna „Michael“ opinberlega, leituðu að nafni hans í opinberum gögnum. Þar kom það varla fyrir. Ein færsla fannst þó í lögbirtingablaðinu, Norsk Lysingsblad, frá sjöunda áratugnum. Þá hafði hann kvænst ungri framreiðslustúlku samkvæmt skráningu sóknarprests í kirkjubækur. Óvíst er um afdrif hennar nú rúmum 50 árum síðar.

Hvað varð um póstinn?

„Michael“ var innflytjandi en hafði búið í Noregi að minnsta kosti síðan á sjöunda áratugnum, í yfir hálfa öld. Hann bjó á nokkrum stöðum í Ósló áður en hann endaði í íbúðinni sem hann bar beinin í og er ekkert vitað um hvort hann átti í einhverjum samskiptum við ættingja sína í upprunalandinu.

Póstur „Michaels“ er önnur ráðgáta í málinu. Að meðaltali berast þrjú bréf á viku í norska póstkassa þótt umfang bréfburðar í Noregi hafi dregist saman um 70 prósent frá aldamótum. Sé miðað við það meðaltal hefði „Michael“ átt að fá 1.400 bréf þann tíma sem hann lá látinn í íbúðinni.

Lögregla fann póst frá 2013 í póstkassa hans, ekkert er vitað hvað varð um ósóttan póst frá vori 2011 og næstu tvö ár. Þegar póstkassinn fylltist lagði norski pósturinn, Posten, bréf efst í troðfullan kassann um að hirslan væri full og stofnunin myndi hér eftir endursenda allan póst til upphaflegra sendenda. Ekki aðhefst pósturinn umfram það og tjáir sig heldur ekki um málefni einstakra póstmóttakenda.

Eitt af mörgu, sem NRK veltir upp í þessu óvenjulega og dapurlega líkfundarmáli, er að eitt eða fleiri þeirra norsku dagblaða, sem birta nöfn úr þjóðskrá á stórafmælum fólks, hafi líklega birt tilkynningu um sjötugsafmæli „Michaels“ sem varði afmælisdeginum á heimili sínu, löngu látinn.

NRK

VG

VGII (kona látin í íbúð sinni í fimm mánuði)

Aftenposten (látið fólk á heimilum 2013 til 2017 – læst áskriftargrein)

mbl.is