Send úr landi þremur mánuðum fyrir útskrift

Aya Abu-Daher ásamt Henrik Stokholm, skólastjóra í Nyborg Gymnasium. Mál …
Aya Abu-Daher ásamt Henrik Stokholm, skólastjóra í Nyborg Gymnasium. Mál hennar hefur vakið nokkra athygli í Danmörku. Ljósmynd/Facebook

Sýrlenskri stúlku, sem búið hefur í Danmörku frá árinu 2015, hefur verið tilkynnt að landvistarleyfi hennar í Danmörku verði ekki framlengt og metið sem svo að öruggt sé fyrir hana að snúa aftur til heimalandsins.

Stúlkan, sem er 19 ára gömul, heitir Aya Abu-Daher og átti að útskrifast úr menntaskólanum í Nyborg á Fjóni nú í vor, allt þar til hún fékk tölvupóst þess efnis að landvistarleyfið yrði ekki framlengt. Málið hefur vakið nokkra athygli í Danmörku eftir að skólastjórinn í menntaskólanum deildi færslu um málið á Facebook.

Öll landvistarleyfi til umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku eru tímabundin og aðeins endurnýjuð ef metið er að viðkomandi geti ekki snúið aftur til heimalandsins. Nú er það mat yfirvalda að óhætt sé fyrir hana að snúa heim.

Í samtali við danska ríkisútvarpið segir Abu-Daher að hún skilji ekki hvernig hægt sé að komast að þeirri niðurstöðu að Sýrland sé öruggt land á sama tíma og því er enn stjórnað af Assad forseta. „Ég vil ekki snúa aftur í dauðann. Ég hef tekið þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum [í Sýrlandi]. Meðan ég er í Danmörku er ég örugg,“ segir hún.

Ágreiningur milli ríkisstjórnar og stuðningsflokka

Mattias Tesfaye, ráðherra útlendinga- og aðlögunarmála, hefur þvertekið fyrir að ákvörðuninni verði hnekkt. „Ég skil vel freistinguna sem sumir stjórnmálamenn hafa fallið fyrir að velja tiltekin mál úr bunkanum og segja að við skulum meðhöndla þau með öðrum hætti. En við neyðumst til að halda okkur við ákveðin prinsipp. Lögin gilda jafnt um alla,“ segir hann í viðtali við sjónvarpsstöðina TV2. Ekki sé hægt að hafa ólíkar reglur fyrir þá sem hafa verið í sjónvarpinu.

Mattias Tesfaye, ráðherra útlendinga- og aðlögunarmála í Danmörku.
Mattias Tesfaye, ráðherra útlendinga- og aðlögunarmála í Danmörku. Ljósmynd/Jafnaðarmannaflokkurinn

Stjórnmálamennirnir sem hann vísar til koma úr röðum stuðningsflokka ríkisstjórnarinnar. Jafnaðarmenn sitja einir í ríkisstjórn í Danmörku en stjórnin er minnihlutastjórn sem nýtur stuðnings annarra vinstriflokka á danska þinginu.

Meðal helstu ásteytingarsteina ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka er einmitt á sviði útlendingalöggjafar, þar sem jafnaðarmenn hafa haldið fast í stranga löggjöf sem innleidd hefur verið síðustu ár, einkum að undirlagi Danska þjóðarflokksins. Er nú svo komið að vart sér á milli þjóðarflokksins og jafnaðarmanna í þessum málum.

Sósíalíski þjóðarflokkurinn (SF), Einingarlistinn og Radikale Venstre hafa allir kallað eftir því að reynt verði að hjálpa fjölskyldu Ayu Abo-Daher að framlengja dvölina í landinu. „Það er ekki öruggt að snúa aftur til Sýrlands. Um það eru öll önnur lönd í ESB, sem og flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, sammála um. Meira að segja utanríkisráðherrann okkar hefur tjáð sig um hve alvarlegt ástandið þar er,“ segir Karsten Hønge, talsmaður SF í málefnum útlendinga.

mbl.is