Geta ferðast óhindrað milli landanna

Íbúar Nýja-Sjálands og Ástralíu geta nú ferðast óhindrað á milli landanna tveggja án þess að vera skikkaðir í sóttkví. Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, greindi frá þessu í dag en rúmt ár er síðan Nýsjálendingar lokuðu landamærunum og hálft ár síðan Ástralar afnámu heimild Nýsjálendinga til að koma til ákveðinna ríkja landsins án þess að fara í sóttkví við komuna.

Ardern staðfesti við fréttamenn að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun að heimildin taki gildi klukkan 23:59 þann 18. apríl. Á Nýja-Sjálandi hafa 26 látist af völdum Covid-19 frá því faraldurinn braust fyrst út en íbúar landsins eru fimm milljónir talsins. Í Ástralíu hafa tæplega eitt þúsund látist af völdum Covid-19 en þar búa um 25 milljónir. 

Í síðustu viku heimiluðu yfirvöld á Kyrrahafseyjunni Palau, sem er eitt fárra landa heims þar sem aldrei hefur greinst Covid-19-smit, að íbúar Taívan mættu koma þangað án þess að fara í sóttkví. Ekkert smit er nú virkt á Taívan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert