Hagspár um allan heim fara batnandi

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) spáir því að viðspyrna hagkerfa heimsins verði meiri en áður var talið. Hagvöxtur á heimsvísu er sagður munu vera um 6% í ár eftir að hafa dregist saman um 3,3% árið 2020 vegna heimsfaraldursins. Það er mesti samdráttur á heimsvísu síðan í kreppunni miklu fyrir tæpri öld.

Þetta segir AGS vera vegna aukinna opinberra fjárveitinga, sérstaklega í Bandaríkjunum, og hraðari dreifingu bóluefna til þróaðra ríkja. Hins vegar segir AGS að betur megi ef duga skuli, frekari batamerki þurfi að sjást svo hagkerfi heimsins bíði ekki varanlegan skaða.

Hagvöxtur í Kína mestur

Gita Gopinath, aðalhagfræðingur AGS, segir að skjót viðbrögð ríkja heimsins, sér í lagi 16 billjón dollara innspýting opinbers fjár um heim allan, hafi komið í veg fyrir mun verri efnahagslægð en raun bar vitni. Gopinath segir að ef ríki heimsins hefðu ekki ráðist í eins viðamiklar viðbragðsaðgerðir hefði efnahagslægðin verið að minnsta kosti þrisvar sinnum dýpri.

Í hagspám AGS er gert ráð fyrir að hagvöxtur í Bandaríkjunum verði um 6,4% á þessu ári, sem er um 1,3% hærra en spáð var í janúar síðastliðnum.

Þá er því spáð að hagvöxtur í Kína verði um 8,4% á árinu, ögn betra en því sem áður hafði verið spáð.

Einnig eru bjartari horfur nú en áður meðal evruríkja, en þeim ríkjum er spáð 4,4% hagvexti á árinu.

Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington D.C. AGS spáir að hagvöxtur á …
Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington D.C. AGS spáir að hagvöxtur á heimsvísu verði í kringum 6% á árinu. AFP
mbl.is