Lést eftir refsingu vegna sóttvarnabrots

Frá höfuðborg Filippseyja á föstudaginn langa.
Frá höfuðborg Filippseyja á föstudaginn langa. AFP

Tæplega þrítugur Filippseyingur lést eftir að hafa verið þvingaður til að gera 300 hnébeygjur fyrir að hafa brotið sóttvarnareglur.

Í frétt Guardian er þetta haft eftir fjölskyldu mannsins en að hennar sögn var Darren Manaog Peñaredondo gripinn glóðvolgur við kaup á vatni eftir að útgöngubann tók gildi klukkan 18 í borginni General Trias í Cavite-héraði. Guardian vísar í frétt filippseyska miðilsins Rappler. Í héraðinu eru í gildi harðar sóttvarnareglur, þar á meðal útgöngubann frá klukkan 18 til 5 að morgni.

Unnusta Peñaredondo, Reichelyn Balce, segir í viðtali við Rappler að Peñaredondo hafi ásamt öðrum brotið Covid-reglur og farið hafi verið með þá á torgið fyrir framan ráðhúsið. Þar var þeim sagt að gera 100 hnébeygjur. Ef þeim tækist ekki að vera í takt yrði þeim gert að endurtaka æfinguna og endað með að þeir hafi þurft að gera 300 hnébeygjur.

Peñaredondo kom heim klukkan átta morguninn eftir og gat varla hreyft sig án aðstoðar vegna þreytu. Hann tjáði Balce að hann hefði dottið nokkrum sinnum þegar hann var að gera hnébeygjurnar.

Þennan dag gat hann ekki gengið og neyddist til þess að skríða um gólfið. Síðar þennan sama dag fékk hann nokkur áföll og endaði í hjartastoppi. Endurlífgun bar árangur en aðeins tímabundið og var hann úrskurðaður látinn klukkan 22.

Lögreglustjórinn í General Trias, Marlo Nillo Solero, segir í samtali við Rappler að slíkum refsingum sé ekki beitt heldur sé fólki lesinn pistillinn, en borgarstjórinn í General Trias, Antonio Ferrer, staðfestir á Facebook að rannsókn standi yfir.

mbl.is