Bæjarar kaupa Spútnik – Ísland í viðræðum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Markus Söder, forsætisráðherra Bæjaralands.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Markus Söder, forsætisráðherra Bæjaralands. Ljósmynd/Samsett

Stjórnvöld í þýska sambandslandinu Bæjaralandi hafa náð samkomulagi um kaup á 2,5 milljónum skammta af rússneska bóluefninu Spútnik. Markus Söder, forsætisráðherra Bæjaralands, kynnti samkomulagið á fundi á miðvikudag, en það er háð því að Lyfjastofnun Evrópu veiti samþykki notkun bóluefnisins. Skammtarnir ættu að fást í sumar.

Á Íslandi eiga stjórnvöld einnig í viðræðum um kaup á bóluefninu. Ríkisútvarpið greinir frá því í dag að viðræður um kaup á efninu séu á frumstigi en rætt hafi verið um kaup á efninu í samstarfi við nágrannaþjóðir.

Rétt eins og í Þýskalandi er forsenda kaupanna sú að Lyfjastofnun Evrópu veiti bóluefninu markaðsleyfi. Hvenær það verður er óvíst.

Bólusetning gengur hægt í Rússlandi

Rúss­ar voru fyrst­ir þjóða til að veita bólu­efni gegn kór­ónu­veirunni til­skil­in leyfi. Spútnik fór ekki í dreifingu fyrr en í desember, en hafði þá þegar fengið markaðsleyfi í landinu í ágúst þrátt fyrir að aðeins 38 einstaklingar hefðu verið sprautaðir með því.

Síðar hefur komið í ljós að bóluefnið er á pari við önnur efni á borð við efni Pfizer og Moderna, en virkni þess er um 91,6% samkvæmt rannsóknum. Er því óhætt að segja að Pútín hafi veðjað á réttan hest.

Þrátt fyrir það gengur bólusetning í Rússlandi hægar en í flestum löndum Evrópu. Aðeins hafa verið gefnir fimm skammtar af bóluefni á hverja 100 íbúa í landinu. Til samanburðar er hlutfallið 14 á Íslandi, 13,1 að meðaltali í Evrópusambandinu og 46,6 í Bretlandi.

Spútnik, bóluefnið frá Rússlandi.
Spútnik, bóluefnið frá Rússlandi. AFP
mbl.is