Norðmenn ná 100.000 smitum

Hjúkrunarfræðingar á Háskólasjúkrahúsi Akershus, A-hus, í mars. Gjörgæsludeild sjúkrahússins var …
Hjúkrunarfræðingar á Háskólasjúkrahúsi Akershus, A-hus, í mars. Gjörgæsludeild sjúkrahússins var þá við það að fyllast og starfsfólkið margt hvert að niðurlotum komið en liðsauki til afleysinga barst frá Ullevål-sjúkrahúsinu og Háskólasjúkrahúsinu í Stavanger auk þess sem fleiri sjúkrahús buðust til að senda fólk. Ljósmynd/Anne Haga/A-hus

Í gær, þriðjudag, greindist hundraðþúsundasta kórónuveirusmitið í Noregi frá því þarlendir fjölmiðlar greindu frá fyrsta smitinu hjá konu nokkurri í Tromsø 26. febrúar í fyrra. Í ágúst náðu samanlögð smit frá upphafi 10.000 í kjölfar tilslakana þeirra sóttvarnareglna sem gripið var til 12. mars í fyrstu lokuninni.

Síðan hefur gengið á ýmsu en frá 9. nóvember í fyrra hefur höfuðborgin Ósló verið meira og minna lokuð hvað hefðbundna atvinnu- og frístundastarfsemi snertir og eftir að stökkbreyttu veiruafbrigðin tóku að ryðja sér til rúms í landinu á fyrstu vikum ársins 2021 hafa sóttvarnareglurnar orðið æ umfangsmeiri og náð yfir sístækkandi svæði með þeim afleiðingum að fjölmiðlar hafa á stundum átt fullt í fangi með að útskýra hvaða reglur gildi hvar og fyrir hverja.

Opnunaráætlun kynnt í dag

Í dag mun Erna Solberg forsætisráðherra kynna opnunaráætlun sem stjórnvöld munu hrinda í framkvæmd eftir því sem óhætt þykir, en Espen Rostrup Nakstad, aðstoðarforstöðumaður Heilbrigðisstofnunar Noregs, sagði í fyrradag að hann teldi rétt að stíga mjög varlega til jarðar við að hefja daglega starfsemi á ný þar til smit í landinu væru komin niður fyrir 200 á sólarhring.

Á miðnætti í gærkvöldi gáfu norskir fjölmiðlar út að nýsmit sólarhringinn þar á undan væru 900 og talan frá upphafi þar með 100.149. „Svo eru það allir þeir sem smituðust án þess að fá greiningu, einkum fyrsta hálfa árið sem faraldurinn stóð,“ sagði Nakstad við norska dagblaðið VG í gær, en hann telur raunverulegan fjölda smitaðra frá upphafi vera nær 200.000. Varaði Nakstad eindregið við því að hefja opnun samfélagsins of snemma og sagði að það væri eins og að trúa á jólasveinin að halda að slíkt færi vel.

Vonast eftir slaka um miðjan maí

Í síðustu viku gengust 124.076 Norðmenn undir veirupróf og reyndust 3,2 prósent þeirra smituð af veirunni sem er 0,7 prósentustigum hærra hlutfall en vikuna þar á undan.

Bjørn Guldvog, forstöðumaður heilbrigðisstofnunarinnar, segist ekki geta gert ráð fyrir öðru en að ströngustu sóttvarnareglur muni gilda áfram út aprílmánuð. „Við getum ef til vill vonast eftir tilslökunum um miðjan maí eða síðari hluta maí, ef við náum að halda útbreiðslunni niðri og bólusetningar verða samkvæmt áætlun,“ sagði Guldvog í gær.

Eins og mbl.is greindi frá í fyrradag tilkynnti Bent Høie heilbrigðisráðherra á páskadag, að núgildandi sóttvarnareglur, sem gilda áttu til 12. apríl, skyldu gilda áfram til 14. apríl þar sem óvíst væri hver þróunin yrði þegar Norðmenn kæmu úr páskafríi og fleiri gengjust undir próf. Fjölgaði nýsmitum úr 572 í 900 fyrsta sólarhringinn eftir að páskahelginni lauk. Í heildina fækkar smitum þó í landinu sé litið til tímabilsins frá 11. febrúar og fram á síðustu daga.

Í Noregi liggja nú 296 manns á sjúkrahúsum vegna Covid-19, þar af eru 90 á gjörgæsludeildum og 59 tengdir öndunarvél. Dauðsföll af völdum kórónuveirunnar í Noregi eru 677 þegar þetta er skrifað.

VG

VGII (tilfellum fækkar miðað við síðustu vikur)

TV2

ABC Nyheter

mbl.is